143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, það er vont að hafa ekki pening í þau nauðsynlegu verkefni sem fyrir liggja í þessum málaflokki. Hver er fjárþörfin? Um það bil milljarður. Um hvað er verið að taka málaflokkinn niður? Um u.þ.b. milljarð. Það getur verið pólitísk skoðun manna sem þeir rökstyðja efnislega að ekki sé réttlætanlegt að ráðast í hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Gott og vel, en að menn skuli falla frá þeirri hækkun og hafa ekki nýtt það svigrúm sem þeir höfðu í sumar og frá því ríkisstjórnin tók við til að útfæra hinn svokallaða náttúrupassa, sem einmitt hefur verið talað um að gæti skilað u.þ.b. milljarði í kassann, er undarlegt.

Það er skrýtið að koma í ræðustól hér á þingi og segja að það sé vont að hafa ekki peningana sem vantar í þetta þegar það hefði klárlega verið fær leið.

Hvað tekur langan tíma fyrir góðan starfshóp, þriggja til fimm manna, að útfæra reglur um náttúrupassa? Tekur ábyggilega ekki meira en 20 mínútur að skipa slíkan hóp, hálftíma miðað við hraðann í Framsóknarflokknum þegar kemur að því að manna stöður. Hvað ætli taki langan tíma að útfæra slíkar reglur? Það liggja fyrir alls konar útfærslur, alls konar hugmyndir. Viku fyrir starfshópinn? Tvær vikur, væru þrjár vikur ekki svolítið ríflegt? Hvað eru margir mánuðir síðan ríkisstjórnin tók við?

Af hverju tala menn um fjárþörf þegar þeir hafa öll færi á því að sækja þessar tekjur? Af hverju afþakka menn tekjur þegar þeir eru ekki búnir að útfæra hugmyndir um að skapa nýjar? Þar birtist auðvitað forgangsröðunin. Framsóknarflokkurinn getur talað um að honum sé umhugað um náttúruna. En allt sem hann gerir bendir til þess að honum sé það ekki. Viðkvæmir ferðamannastaðir sem liggja undir mikilli ásókn þola illa þann mikla fjölda ferðamanna sem kemur árlega. Það þarf að bregðast við. Til að bregðast við þarf fjármagn. Það er fær leið til þess að sækja fjármagn.

Ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lögðumst gegn fyrirhugaðri hækkun síðustu ríkisstjórnar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu vegna þess að okkur fannst tíminn of skammur. Okkur fannst að það væri mikilvægt að greinin hefði tíma til þess að undirbúa sig og setja slíkar breytingar inn í sitt verðlag. Það var orðið við þeim óskum enda hafði sú ríkisstjórn ekki meiri hluta án okkar stuðnings í málinu. Nú hefur núverandi ríkisstjórn ákveðið að afþakka þessar tekjur en hefur hins vegar ekki útfært það hvernig hún ætlar að skapa sér nýjar, en barmar sér yfir peningaleysinu. Það er það sem stangast á í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra.