143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við þekkjum það mætavel af þessum vettvangi að það er mjög mikilvægt að vanda til verka þegar farið er af stað í hvaða verkefni sem er. Við höfum of oft rekið okkur á það að hingað koma jafnvel aftur inn mál eða frumvörp sem fóru of hratt í gegn og voru gölluð og þess háttar. Ég er ekki sammála því að verið sé að eyða tímanum. Auðvitað hefði verið mjög gott ef við hefðum verið með þetta allt tilbúið og klárt fyrir framlagningu þessa frumvarps. Við viljum hins vegar vanda okkur. Við viljum gera þetta þannig að við fáum sem mest út úr þessu.

Það er annað sem þarf að taka inn í myndina líka. Mun gjaldtaka sem þessi hafa áhrif með einhverjum hætti á það hvers konar ferðamenn koma til landsins? Hvernig ferðamenn viljum við fá til Íslands? Við viljum væntanlega fá ferðamenn sem eyða nógu miklum peningum til að skapa nógu mikla veltu í samfélaginu o.s.frv. Það er svo margt sem þarf að taka til skoðunar þegar við fjöllum um þetta.

Ég held að það sé bara mjög gott að heyra þessar brýningar frá hv. þingmanni og öðrum þingmönnum um að þessu þurfi að hraða. Ég veit að þeir sem eru að vinna í þessu munu hlusta á það. Vonandi mun þetta ganga hratt fyrir sig.

Ég er að sjálfsögðu ekki sammála því, og þarf ekki að koma á óvart, að allt sem framsóknarmenn gera bendi til þess að það sé ekki umhverfisvænn flokkur. Við höfum miklar áhyggjur af umhverfinu, en við viljum kannski ekki fara endilega sömu leiðir og aðrir. Eins og kom fram í umræðunni í dag þegar menn töluðu um vetrarbrautir og svarthol er gjarnan svolítið langt á milli þegar við horfum á heildarsamhengið. Ég afneita því klárlega að Framsóknarflokkurinn sé flokkur sem er að berjast gegn umhverfisvernd og náttúruvernd, alls ekki. Við erum kannski ekki endilega öll sammála um hvaða útfærslur og leiðir eigi að fara.