143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þau skilaboð sem hv. þingmaður sendi úr ræðustólnum eru það sem við leggjum áherslu á í þessari umræðu, í það minnsta ég, að það er verið að hægja á ákveðnum hlutum og fresta. Það er ekki búið að taka ákvörðun um að hætta við þessi verkefni en það eru eðlilega vonbrigði að þurfa að fara þessa leið.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að finna tekjurnar, finna fjármunina til að styrkja ferðamannastaðina. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni hjá hv. þingmanni og fleirum, m.a. formanni Vinstri grænna, að margir ferðamannastaðir eru í því ásigkomulagi að við getum illa við það unað. Þess vegna þurfum við að finna þessa fjármuni. Það má vitanlega ekki heldur gerast að Ísland fái orð á sig fyrir að vera land sem var gaman að koma til en er ekki lengur hægt vegna þess að ferðamannastaðir eru illa útlítandi og illa á sig komnir.

Til þess að geta þá staðið undir þessu þurfum við að ná í tekjur. Ef við gefum nefndinni sem er að vinna að útfærslunni á þessu svigrúm til að skila sínu verður vonandi kominn tekjustofn sem hægt er nota og byggja upp í þetta.