143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:03]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögðin en langar að beina orðum mínum núna í aðra átt, sérstaklega fyrst hæstv. utanríkisráðherra er hér starfandi sem umhverfisráðherra. Mig langar að tala aðeins um hlýnun jarðar og þær breytingar sem eiga sér stað. Reyndar sjáum við núna að útkoman er þvert á þær spár sem menn töldu en það er önnur saga.

Í hlýnun jarðar felast mikil tækifæri en einnig vandamál. Ef við byrjum á vandamálunum er það alheimsvandamál um losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnunina sem hefur slæm áhrif á mörg svæði, þó að það hafi mörg jákvæð áhrif á Ísland, en einnig kemur það fram í breyttu veðurfari sem við sjáum með snjó fyrir norðan og rigningum fyrir sunnan. Kartöfluuppskera og fjárbúskapur er í hættu.

Mig langar líka að tala aðeins um tækifærin því að þau eru mörg og við á Íslandi megum ekki glata þeim frá okkur. Þau felast annars vegar í breyttum og nýjum fiskimiðum, bæði í kringum Ísland og á norðurslóðum, og hins vegar í opnun Norður-Íshafsins með siglingaleiðum og tilheyrandi viðskiptatækifærum.

Ég mun leggja mitt af mörkum til að nýta þessi tækifæri og möguleika. Einnig ætla ég að leggja mitt af mörkum til þess að Ísland geti verið fyrirmynd í umhverfismálum og þeim málum sem gera Ísland að grænu og eftirsóknarverðu landi.