143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Meginmarkmið ríkisstjórnar er að skila fjárlagafrumvarpi sem gerir ráð fyrir hallalausum ríkissjóði, að hætta skuldasöfnun og ná niður halla ríkissjóðs. Um það markmið held ég að við getum öll verið sammála, okkur greinir hins vegar á um leiðir til að ná þessu, eins og eðlilegt er þegar mikið er undir og í hlut á flókinn rekstur og starfsemi eins og sú sem ríkissjóður hefur með höndum.

Til að ná þessu markmiði var ákveðið að að hluta til yrði beitt 1,5% hagræðingarkröfu á alla málaflokka og er ég hér mættur til að gera grein fyrir heilbrigðishluta fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014, þeim áherslum sem þar er að finna, hvernig við mætum þeim áherslum sem mótaðar hafa verið við það meginverkefni okkar að koma ríkissjóði út úr hallarekstri.

Ef við horfum til fjárlagafrumvarpsins eins og það birtist okkur liggur fyrir að fjárlög ársins 2013 gerðu ráð fyrir 127,3 milljarða útgjöldum til heilbrigðismála. Fjárlagafrumvarpið, eins og það liggur fyrir hér á þinginu, gerir ráð fyrir að heildarútgjöldin séu um 132,8 milljarðar og hlutdeild heilbrigðismála í heildarútgjöldum A-hluta ríkissjóðs hefur vaxið úr því að vera 21,8% í fjárlögum ársins 2013 í rúm 22% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Þegar farið er yfir frumvarpið eins og það liggur fyrir má sjá að þær viðbætur sem koma inn í fjárlagagrunninn fyrir árið 2013 eru á þann veg að bundin útgjöld aukast um 4,7 milljarða, sem er hrein viðbót við fjárlög þessa árs. Til viðbótar þeim 4,7 milljörðum má síðan nefna að launa- og verðlagsuppfærslur eru 3,2 milljarðar þannig að hrein útgjaldaaukning frá fjárlögum ársins 2013 til heilbrigðismála eru tæpir 8 milljarðar kr.

Á móti þeim útgjaldaauka eru síðan samdráttar- eða aðhaldskröfur sem gerðar eru í heilbrigðismálunum upp á 1,6 milljarða í ýmsum verkefnum. Stærsti hluti þess sem þar er inni eru rúmar 200 millj. kr. í því sem mikið hefur verið rætt um sem aðhaldskröfu, í legugjöldum á sjúkrastofnanir, en einnig er þar að finna niðurfelldar tímabundnar heimildir upp á 880 millj. kr. Þegar þetta er lagt saman eru útgjöld til heilbrigðismála frá fjárlögum ársins 2013 að aukast um 4,3% í heildina og til viðbótar vil ég enn fremur nefna, sérstaklega í tengslum við umræðu um Landspítala – háskólasjúkrahús, að ég hef gefið út yfirlýsingu varðandi tæki og búnað, að því er unnið, og ég geri ráð fyrir því að birta slíka áætlun fyrir 2. umr. En ég vil líka minna þingmenn á þá breytingu sem verður á starfsumhverfi Landspítalans við það að færa út úr umönnun eða umsýslu Landspítalans 40 til 45 hjúkrunarrými sem mikil samstaða hefur verið um að gera. Það léttir óneitanlega á þyngdinni í þjónustu sem Landspítalanum hefur verið gert að sinna, og hefur sinnt því mjög vel.

Helstu verkefnin sem unnið verður að á næsta ári eru endurskipulagning og styrking heilsugæslunnar. Ég kem væntanlega nánar að því í svörum hér á eftir við fyrirspurnum. Við höfum líka sett af stað vinnu við að endurskoða greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í heilbrigðiskerfinu og það er verkefni sem ég bind mjög miklar vonir við.

Þó að okkur greini á um margt þá er sumt mikilvægara en annað af því sem veldur deilum okkar á milli, sumt af því sem við erum að karpa um öðru hvoru er léttvægt og skiptir litlu máli til framtíðar. En við erum þó öll sammála um eitt, þ.e. að við viljum tryggja öfluga og góða heilbrigðisþjónustu. Við viljum öll hér í þessum sal sækja fram. Ég hef engan áhuga á öðru en að vinna með þeim sem þannig vilja leggja til hlutanna. Ég held að lausnin felist ekki í því að benda hvert á annað og ásaka fyrri ráðherra eða ríkisstjórnir. Lausnin á þessu sameiginlega verkefni okkar felst miklu frekar í því að við stöndum saman um þau fyrirheit sem við höfum öll gefið íslenskri þjóð um að heilbrigðiskerfið verði á komandi árum öflugt og öfundsvert. Miðað við umræðuna sem staðið hefur alllengi, ekki eingöngu á þessu ári, tel ég að við höfum tækifæri til að sýna það og sanna að við ætlum okkur að standa við þau stóru orð sem við öll höfum látið falla í þeim efnum.