143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var víða komið við. Fyrst er til að taka að þær 170 milljónir sem skornar hafa verið niður, eins og hv. þingmaður nefndi, fengust ekki yfirfærðar sem geymdar fjárheimildir yfir á árið 2013 en engu að síður er ég þeirrar skoðunar að það séu verkefni sem þurfi að bíða. Ég tel önnur verkefni brýnni í íslenskri heilbrigðisþjónustu en þau að hefja byggingu tveggja stofnana sem ég tel að séu byggðar miðað við skipulag á heilbrigðisþjónustu sem við erum að horfa upp á molna í höndunum á okkur smátt og smátt. Við verðum að mæta þeim ógnum sem steðja sérstaklega að heilsugæslunni víða um land. Liður í því er meðal annars þau áform sem ég er að tala um varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana. Af því að spurt er hvort það hafi verið kynnt viðkomandi sveitarstjórnum eins og lög gera ráð fyrir þá hefur það verið gert. Þeim hefur öllum verið skrifað bréf, öllum viðkomandi sveitarstjórnum og einnig Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það var kallað eftir viðbrögðum við áformunum og þau viðbrögð eru að skila sér inn.

Varðandi málefni heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni er ætlunin ekki sú að einkavæða alla þá starfsemi. Það liggur fyrir í úttektum sem gerðar hafa verið, m.a. af Boston Consulting Group sem unnar voru fyrir síðasta hæstv. velferðarráðherra á árinu 2011–2012, að afköstin í heilsugæslunni eru gríðarlega breytileg milli stöðva, allt upp í það að vera 40% afkastamunur. Við höfum módel í heilsugæslunni sem ástæða er til að skoða betur hvort geti gagnast á öðrum stöðum í heilsugæslunni til að tryggja betri gæði og meiri framleiðni. Það verður gert en ekki með þeim hætti að einkavæða alla þjónustuna. Ég er ekki að tala um það heldur miklu fremur að draga lærdóm af því módeli sem meðal annars hefur verið rekið með afburðagóðum árangri í Salastöðinni (Forseti hringir.) í Kópavogi. (Gripið fram í.)