143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ekki væri meiningin að einkavæða alla heilsugæslu í Reykjavík en hann talaði eins og það væri inni í myndinni að gera það að hluta. Mér finnst það mikið áhyggjuefni ef þróunin er að fara eigi út í aukin útboð og rekstur sem við höfum ekki haft hér á landi að undanteknum tveimur einkareknum heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu sem ég tel alveg nægjanlegt.

Varðandi sameiningu stofnana á landsbyggðinni tel ég það eitthvað sem við megum skoða. Auðvitað er mikilvægt að það sé í góðu samráði við heimamenn og að þjónustan sé ekki skert þótt reynt sé að hagræða en fyrst og fremst þarf að vera góð samvinna við heimamenn. Ég tel mjög alvarlegt þegar heimamenn hafa í samvinnu við stjórnvöld reynt að hagræða og ná fram samlegðaráhrifum, líkt og í Stykkishólmi eins og ég nefndi áðan, að sú vinna sé öll brotin niður. Mér finnst það mjög alvarlegt þegar menn hafa sýnt fram á að þarna sé hægt að byggja upp á öðrum grunni og á hagstæðari hátt þjónustu sem sjúkrahúsið hefur boðið upp á í gegnum tíðina og samnýta hvað varðar að koma þar inn hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum. Mér finnst illa farið með þá miklu vinnu sem þarna er á ferðinni og hæstv. ráðherra svaraði því ekki hver stefnan er varðandi Landspítalann. Hver er stefnan varðandi framtíðarsýn hjá Landspítalanum miðað við að Landspítalinn eyðir óheyrilegum fjármunum í viðhald á stofnunum og húsnæði úti um allan bæ?