143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:58]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gera góða grein fyrir fjárlagafrumvarpinu, þeim hluta sem snýr að ráðuneyti hans. Mér finnst ekki öfundsvert að leggjast í þá vinnu fjárlagafrumvarps sem snýr að heilbrigðismálum. Heilbrigðisþjónusta um allt land hefur verið skorin inn að beini í mörg ár og að mínu mati hefur ekki verið forgangsraðað á réttan hátt. Núna er kominn tími til að snúa þeirri þróun til betri vegar.

Í því frumvarpi sem hér um ræðir og snýr að heilbrigðisráðuneytinu er ýmislegt jákvætt að finna og ég ætla að byrja á því að nefna nokkur þeirra atriða. Í fyrsta lagi munu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra vinna að gerð nýrrar tækjakaupaáætlunar fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri til ársins 2017. Er það algjörlega í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar er lögð áhersla á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti Landspítalans. Áætlunin verður unnin í samráði við starfsfólk þessara stofnana. Mér finnst nauðsynlegt að farið verði sem allra fyrst í vinnu við að skoða hvaða fjármagn þarf til tækjakaupa og endurbóta á næstu árum og mikilvægt er að horfa til framtíðar. Ástandið eins og það hefur verið undanfarin ár gengur bara alls ekki lengur.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvenær hann eigi von á að tækjakaupaáætlunin verði tilbúin og hvenær Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri eigi von á auknu fjármagni til tækjakaupa og endurbóta.

Í öðru lagi mun fjárveiting til öldrunarmála hækka um 835 millj. kr. að raungildi. Þar af er um 350 millj. kr. framlag til reksturs 40 hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum. Með þessu ætti að létta verulega álagi af lyflækningasviði Landspítalans þar sem mikið hefur reynt á undanfarið. Auk þessa verði 1.500 millj. kr. varið í auknar launagreiðslur heilbrigðisstofnana og 350 millj. kr. fara í niðurgreiðslu tannlækninga barna á grundvelli samnings við tannlækna.

Í frumvarpinu er einnig að sjá nokkra hluti sem ég hef talsverðar áhyggjur af, en það er niðurskurður og sameining heilbrigðis- og sjúkrastofnana úti á landi. Ég bið hæstv. heilbrigðisráðherra að standa vörð um þessar stofnanir því að þjónusta tengd heilbrigðismálum er einn af þeim stóru þáttum sem fólk lítur til þegar það velur sér búsetu úti á landi með tilliti til öryggis og lífsgæða. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig hann ætli að standa vörð um þessar stofnanir úti á landi þannig að íbúar landsbyggðarinnar þurfi ekki sífellt að sækja þjónustu um langan veg. Ég vil einnig velta þeirri spurningu upp við hæstv. heilbrigðisráðherra hvort honum finnist ekki ráð að efla sjúkrahús í nágrenni Reykjavíkur til að létta álagið á Landspítalanum.

Að lokum kemst ég ekki hjá því að minnast á umtalað og umdeilt legugjald. Mér finnst ekki rétt að taka gjald af fárveiku fólki sem neyðist til að leggjast inn á spítala en gæta verður jafnræðis. Þeir sem leggjast inn á göngudeildir, t.d. krabbameinssjúklingar í meðferð, (Forseti hringir.) þurfa að greiða háan kostnað þar sem þeir liggja ekki inni yfir nótt. (Forseti hringir.) Ég bind miklar vonir við vinnu að nýju greiðsluþátttökukerfi sem unnið er að í þeirri von að fundin verði sanngjörn lausn á þessum málum.