143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni vil ég taka fram að þau áform eru ekki sett fram til að veikja stoðir heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi eða heilsugæslunnar. Þvert á móti hefur þessi tillaga legið lengi fyrir sem ein af mörgum sem viðleitni í þá átt að styrkja þennan grunn heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.

Ég skil vel ótta manna við þessi áform. Ég bendi hins vegar á mjög góða reynslu sem við höfum fengið af álíka sameiningu, en ekki á jafn viðkvæmu sviði. Það var sameining skattumdæma landsins í eitt sem var unnin á síðasta kjörtímabili. Hún gafst mjög vel og við fáum mjög góða þjónustu á þeim grunni. Þetta gengur út á það sama, þ.e. að við ætlum að reyna að sameina starfsemi til að styrkja þá vinnu sem stofnunum er ætlað að skila. Ég legg áherslu á að á meðan ég gegni starfi heilbrigðisráðherra hef ég ekki hug á því að draga úr gæðum þeirrar heilsugæslu sem veitt er úti um land, svo að það sé sagt alveg skýrt.

Varðandi tækja- og búnaðarkaup til sjúkrastofnana vonast ég eftir því að geta lokið þeirri vinnu um miðjan nóvember í síðasta lagi sem tekur til þessara fjögurra ára. Ég vil að við afgreiðslu slíkrar áætlunar verði hún fest í sessi til lengri tíma en eins árs. Ég tel að svo sérhæfðar stofnanir sem Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eru verði að geta gert áætlanir um tækjakaup til lengri tíma en eins árs. Og þó að það hafi legið fyrir góður vilji og annað voru tryggingarnar ekki betri en þetta. Þetta er tímabundin fjárveiting sem þarf að endurnýja á ári hverju.