143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi ráðherra þessa málaflokks, svarar þessu snöggt og skilmerkilega játandi. Ég er ekki á sama máli. Ég skil alveg sjónarmið hv. þingmanns.

Varðandi þær spurningar sem upp á mig standa um S-merktu lyfin, ég ætla að byrja á þeim. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir hér, að farið var að kanna þennan möguleika á árinu 2008, ef ég man rétt. Ég er búinn að taka þann þráð upp og er að láta kanna þá möguleika sem við eigum í samstarfi við Noreg eða Danmörku í þá veru að fá að ganga með þessum nágrönnum okkar inn í lyfjaútboð. Ég tel tvímælalaust mikla kosti í því. Við erum líka að skoða aðra þætti á sviði lyfjamála. Ég vil taka fram að kostnaður ríkissjóðs vegna almennra lyfja er að lækka, m.a. vegna aðgerða sem gripið hefur verið til fyrr á árum þannig að við erum að ná ákveðnum árangri í þessum efnum.

Stóra spurningin lýtur að Landspítala – háskólasjúkrahúsi, ég hef ekki enn svarað henni. Það verkefni er enn lifandi í mínum huga og ég staðfesti það enn og aftur. Við þurfum með einhverjum hætti að halda því gangandi. Það sem verið er að vinna í þessu er í ágætu samstarfi mínu og núverandi nýs forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss, við höfum átt viðræður um þennan þátt. Páll Matthíasson er að móta áætlun í þessum efnum, hvernig við getum búið starfsemina á Landspítalanum undir þær áherslur sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni. Við erum að vinna með málið innan spítalans með það fyrir augum að búa starfsemina þar undir það að geta tekið breytingum. Við erum að nýta þann tíma sem óneitanlega kemur í þetta framkvæmdahlé til að búa okkur undir annan og nýjan veruleika. Hvernig það stendur nákvæmlega get ég ekki sagt á þessum tímapunkti, við erum að stíga fyrstu skrefin í þeim efnum.