143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Já, já, það má rýna í þessar tölur en staðreyndin er sú að það er til fólk sem neitar sér um læknisþjónustu og það er þetta hægri/vinstri-hringl, það er alltaf verið að hringla með landsmenn. Það eru háir skattar og fólki er lofað að það verði hugsað um það, það er lágmark að það sé hugsað um heilbrigði þess þegar það er hvað veikast, það sé ekki verið að leggja á það óþarfar áhyggjur með því að taka greiðslur sem skipta máli fyrir suma. Þetta er staðan.

Svo kemur hægri stjórn og þá er hringlað með þetta og sagt: Nei, nú þurfum við að hækka gjöldin á sjúklinga þegar þeir eru hvað veikastir. Þetta er hringl. Það mundi enginn láta bjóða sér svona hringl á frjálsum markaði. Á frjálsum markaði mundu menn gera fasta samninga og samningar þyrftu að standa, ekki eitthvert hringl eftir kosningar. Það er þetta sem ég held að fólk sé gríðarlega óánægt með. Ég hef tekið eftir því hjá hægri mönnum að þeir eru mjög óánægðir með að það sé verið að hækka gjöld á sjúklinga. Þetta er grundvallaratriði sem meðal annars hægri menn vilja ekki sjá.

Hægri menn kunna að auka skilvirkni. Þetta er mikið til fólk sem kemur úr viðskiptalífinu og hefur lært vel að auka skilvirkni. Það eiga þeir að gera, einbeita sér að því sem þeir eru sterkir í, auka skilvirkni í kerfinu og lækka kostnað til lengri tíma, ekki loka þessu fjárlagagati á bökum sjúklinga með því að rukka þá meira.

Spurningin er hvort það sé óhagganleg stefna ríkisstjórnarinnar að stoppa í fjárlagagatið með aukinni greiðsluþátttöku sjúklinga.