143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:31]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég treysti engum betur en hæstv. heilbrigðisráðherra að taka til og koma sjúkrahúsmálum í Vestmannaeyjum í lag. Þau eru mér ofarlega í huga. Við þurfum líka að átta okkur á því hvaða öryggisstig þarf að vera úti í eyju þar sem búa 5 þús. manns við atvinnulíf sem er áhættusækið og kallar á öfluga þjónustu. Ég treysti því að á næstu vikum verði gengið frá því.

Ég vildi líka ræða sjúkraflutninga af þessu tilefni. Það virðist stundum gleymast að kostnaður við sjúkraflutninga bætist við þegar við skerum niður á stofnunum í kringum landið og flytja þarf sjúklinga á milli landshluta til að sækja þjónustuna á höfuðborgarsvæðið. Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin greitt með sjúkraflutningunum um það bil 500 milljónir á undanförnum átta til tíu árum.

Það þarf að samræma það hvernig sjúkraflutningar eru framkvæmdir og eiga um það samstarf við sveitarfélögin, við brunavarnir á svæðunum og sjúkraflutningamenn og björgunarsveitir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum það. Ég hygg að með því mætti ná fram hagræðingu og sparnaði, efla jafnvel slökkvilið víða með því. Það var gert á Suðurnesjum. Ég held að við þurfum að hafa svolítið svipaðar línur í sjúkraflutningum hringinn í kringum landið. Það er naumt skammtað í sjúkraflutninga eins og annað og þess vegna er mikilvægt að við veljum hvort við viljum alvörusjúkraflutninga eða fangelsi á Hólmsheiði — það er dauðans alvara — eða almennilega sjúkraflutninga eða rekstur Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Við þurfum að hugsa þetta mjög vel, málið snýst um þetta. (Gripið fram í.) Við þurfum auðvitað að hafa þor í það eða viljum við eyða peningunum í ný dýraverndunarlög sem kosta okkur 125 milljónir? Ég velti því fyrir mér. Ég er ekki í neinum vafa um hvað ég mundi velja.