143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er öflugur bandamaður heilbrigðisþjónustunnar (ÖS: Og dýraverndar.) og dýraverndar, eins og hér er bent á, og það erum við að sjálfsögðu öll. Hann nefnir ýmsar leiðir til þess sem ég kýs að kalla áskorun til þingsins um að skoða breytingar á forgangsröð og skoða hvort við getum veitt fjármuni til einhverra verkefna með öðrum hætti en við höfum verið að gera. Það tel ég bara sjálfsagt og eðlilegt að þingið hafi fullt frjálsræði í slíku. Það hefur alltaf legið fyrir. Nú fer fjárlagafrumvarpið til þingsins og þá hefst vinna þess við það.

Varðandi sjúkraflutningana sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni er það gríðarlega mikilvæg þjónusta. Hún hefur því miður verið samningslaus á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011. Það hefur staðið í stappi á milli ríkisins og sveitarfélaganna á svæðinu og stendur raunar enn, við erum ekki búin að ljúka þeim samningum. Þar takast á ólíkar skoðanir og ólík viðhorf. Það er í mínum huga mjög brýnt að reyna að koma málinu úr þeim farvegi en ekki augljóst hvernig á að gera það. Ég hef hallast að því að litið verði á þessa þjónustu þannig að reynt verði að greina hana með einhverjum hætti á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ég tel færi til þess að sundurliða þessa flutninga og breyta kröfunum til mismunandi gerðar af sjúkraflutningum og bjóða jafnvel einhvern hluta þeirra út, einföldustu flutningana, þ.e. flutning á einstaklingi frá einni stofnun til annarrar. Þetta er verkefni sem enn er unnið að og því miður ekki komin lausn á.