143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hæstv. heilbrigðisráðherra að að sjálfsögðu eigum við sífellt að spá í endurskipulagningu, þar með talið á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það sem er gagnrýnisvert og erfitt eftir það sem á undan er gengið, eftir þá erfiðu tíma sem við erum búin að fara í gegnum í framhaldi af því hruni sem varð þegar við lentum í með ríkissjóð 200 milljarða halla fyrir aðeins fimm árum síðan, er að mér finnst óeðlilegt að setja tölurnar fyrst. Mér finnst það vond skilaboð eftir það sem á undan er gengið að setja tölu á eitthvað þegar ekki er búið að vinna vinnuna varðandi hvernig skuli ná þessu fram. Sama gildir um sameiningu heilbrigðisstofnana, sem ég styð auðvitað að verði skoðuð áfram, en þá þarf að liggja fyrir að menn vinni það eftir þeim handbókum sem til eru um það og síðan setja menn töluna á eftir á.

Af því að við ræddum fyrr í umræðunni um einstaka stofnanir, Vestmannaeyjar voru nefndar og væri örugglega hægt að nefna fleiri staði, ætla ég að taka dæmi um það sem ekki má gerast þegar við skiptum um ríkisstjórnir. Þess vegna hef ég margoft sagt að hver og einn heilbrigðisráðherra á ekki að reyna að reisa sér minnisvarða, hann á að geta lifað kosningar þar sem heilbrigðismál þurfa að lifa ráðherra, eins og ég orðaði það.

Farið var í gríðarlega mikla vinnu í ýmsum stofnunum varðandi það hvernig ætti að hagræða þar. Nefni ég þá Heilbrigðisstofnun Vesturlands þar sem er samkomulag um að leggja niður heila deild, þar verður 125 milljarða sparnaður. Ég orðaði það nokkurn veginn þannig að ég hefði samið um að önnur höndin yrði tekin af þessari stofnun en að nú komi nýr ráðherra og taki hina. Það má ekki gerast. Þarna vantar ekki lækna. Þarna vantar ekki starfsfólk, þá er ég að tala um sjúkradeildina á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Það eru svona hlutir sem ekki mega gerast. Ég heiti liðsinni í því að við vinnum þetta sameiginlega vegna þess að ef á heildina er litið er ekki mikill ágreiningur um heilbrigðismál. Við erum í erfiðri stöðu. Við erum búin að fara í gegnum bölvað tímabil. Við erum búin að vera í blóðugum niðurskurði þvert á það sem við hefðum viljað og enn þá er ástandið erfitt. En það er algjörlega ljóst að þjóðin og Alþingi vill að þarna sé forgangsraðað. Ég held að við verðum (Forseti hringir.) að standa saman að því og treysta á að við munum gera það.