143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hygg að það sé ekki ofmælt að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi tekið við erfiðu verkefni. Þetta er mikilvægur en um leið viðkvæmur og vandasamur málaflokkur. Vaxandi þungi á þjónustu og lýðfræðilegar breytingar hafa í för með sér að við getum ekki reiknað með neinu öðru en að kröfurnar eða kostnaðurinn á þessu sviði muni vaxa á komandi árum. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þetta glíma menn við víða um lönd. Meira að segja í hinum olíuríka Noregi sem maður skyldi nú ætla að hefði aura til að kippa málum í liðinn hafa heilbrigðisráðherrar ekki allir kembt hærurnar. Þar eru stanslausar kröfur uppi um að gera betur í þessum viðkvæma málaflokki. Ég óska hæstv. heilbrigðisráðherra alls góðs í því.

Ég ætla reyndar að byrja á því að hrósa honum. Það gladdi mig þegar tiltölulega snöfurmannlega var tekið á þeirri stöðu sem upp var komin og er auðvitað uppi á lyflækningadeild Landspítalans. Ég sé ekki betur en þar hafi verið skynsamlega að verki staðið að koma upp hjúkrunarrýmum á Vífilsstaðaspítala og létta þar með á Landspítalanum sjálfum og því fylgir sérstök fjárveiting ef ég veit rétt.

Ég hlýt að nefna byggingaráformin. Það er huggun harmi gegn að hér er sagt að þeim sé haldið lifandi, en vonandi er það ekki bara í öndunarvél. Ég held að það þýði ekki annað en horfast í augu við að það verður að taka stefnu í þessum málum og má ekki dragast. Það er stórkostlega skaðlegt að nokkur óvissa sé uppi um þetta og ástandið mun ekkert gera annað en versna ef við förum ekki að koma þessum málum í farveg af svo mörgum ástæðum. Ég held að ekki sé hægt að takast á við málefni Landspítalans, rekstrarleg og fagleg og hvað varðar mönnun, aðskilið frá þessu. Þannig hef ég a.m.k. upplifað það undanfarin missiri af starfsfólki sem þarna er. Það hefur lifað, mér liggur við að segja, í voninni um að þetta væri að koma, það hefur haldið mönnum dálítið gangandi. Látum þá von ekki slökkna.

Ég vil nefna rafræna sjúkraskrá og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi náð að kynna sér það, tekið afstöðu til þess máls. Það er hliðstætt Landspítalanum. Ég viðurkenni vissulega að við höfum ekki komist langt áfram með það, en þar er samt hagræðingar- og þjónustuframfaramál á ferðinni sem er blóðugt að við getum ekki komið áfram.

Loks nefni ég sameiningu heilbrigðisstofnana. Ég ætla ekkert að sækja vatnið yfir lækinn. Ég spyr um hvernig hæstv. ráðherra sjái þetta fyrir sér á Norðurlandi. Hvenær og hvernig verður Sjúkrahúsið á Akureyri með eða ekki með í þeirri sameiningu? Verður Heilsugæslustöðin á Akureyri með eða ekki með í þeirri sameiningu? Verði hún með, hvað verður þá um samning ríkisins við Akureyrarbæ um þá fyrirmyndarþjónustu sem þar hefur verið veitt?

Loks vara ég við hugmyndum um að sparnaður muni skila sér strax á næsta ári og það sé hægt að taka hann inn í fjárlög næsta árs. (Forseti hringir.) Er ekki augljóst mál að biðlaun og annað því um líkt mun þýða að þetta skilar litlu fyrsta árið sem þetta kemur til framkvæmda?