143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki bombardera hæstv. ráðherra með nýjum spurningum eins og sumir hafa gert hér því ég hef fullan skilning á þessu erfiða hlutverki að eiga að svara ósköpum öllum á tveimur eða þremur mínútum.

Ég vil segja um byggingaráformin á Landspítalanum, með fullri virðingu fyrir Kára Stefánssyni eða hverjum öðrum, að það er eðlilegt að menn segi: Við verðum fyrst að koma starfseminni sem þar er í lag og í horf, svo getum við farið að láta okkur dreyma um einhverjar byggingar. Margir undrast á því að menn séu að tala um nýja steinsteypu þegar við erum í miklum erfiðleikum með að reka starfsemina (Gripið fram í.) eins og hún er. Já, en þá kemur að því.

Ég sannfærðist um það fyrir tveimur, þremur árum, eftir talsverða yfirlegu, að þetta er ekki svona. Þetta er algerlega óaðskiljanlegt vegna þess að það þýðir ekkert að fara að reyna að kaupa einhver ný tæki. Ef þau komast inn í spítalann, inn í húsnæði sem liggur undir skemmdum, er jafnvel heilsuspillandi, og þú færð ekki ungt fagmenntað fólk til að vinna við þær aðstæður — það er ekki hægt að aðskilja þetta svona. Þetta er þannig starfsemi að henni verður við fátt annað samjafnað hvað það varðar að nútímatækni og tæki og eftir atvikum fagfólk – hún gerir bara kröfur til þess að vissir hlutir séu boðlegir og í lagi. Ég held að við munum ekkert manna Landspítalann og búa hann út í mörg ár í viðbót öðruvísi en að lausn fáist á húsnæðismálunum.

Varðandi rafrænu sjúkraskrána er alveg rétt að þar hafa verið hindranir í vegi og kannski eru ekki allir jafn sannfærðir um ágæti hennar, en ég gerðist nokkuð sannfærður um að í því væru fólgnir gríðarlegir möguleikar að byggja hana upp. Það er fjárfesting, það er rétt, en hún hefur líka alveg gríðarlega kosti í för með sér, sem og það að nýta betur en við höfum verið að gera möguleika hinnar rafrænu tækni á ýmsum sviðum, fjarvinnslu t.d. og fjargreiningu í myndgreiningu og annað því um líkt. Við erum því miður ekki nálægt því að nýta okkur alla þá kosti sem mögulegir (Forseti hringir.) eru í nútímanum á grundvelli slíkrar tækni.