143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að svara þeim spurningum sem upp á mig standa enn þá frá fyrirspurn hv. þingmanns, og snúa að sameiningu heilbrigðisstofnana.

Sjúkrahúsið á Akureyri er ekki með í þessum áformum, um það gilda sérstök lög. Ég hyggst vinna að sameiningunni á grundvelli gildandi laga án þess að fara til breytinga með þau.

Samningarnir sem um ræðir eru tveir við sveitarfélög, annars vegar við Heilsugæsluna á Akureyri og hins vegar á Höfn í Hornafirði. Ég hef einfaldlega gert ráð fyrir því að ný heilbrigðisstofnun taki yfir slíka samninga sem reynslusveitarfélögin eða sveitarfélögin hafa haft með höndum.

Fyrir liggur áhugi sveitarfélaga víðar um land til samninga um ákveðna hluta grunnþjónustunnar. Það er sjálfsagt að skoða það, þó ekki fyrr en þessari vinnu lýkur. Við munum vinna á grunni fyrri sameininga og draga lærdóm af þeim athugasemdum sem m.a. hafa komið frá Ríkisendurskoðun um hvað betur mátti fara við sameininguna á Heilbrigðisstofnun Austurlands og síðan sameiningu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem í mínum huga hefur lukkast mjög vel. Það er mjög góð vinna sem unnin er þar.

Nei, ég er ekki að segja að Kári Stefánsson sé algildur spekingur í þessum efnum þótt hann sé draumspakur og minnugur á góðan kveðskap. Ég er þeirrar skoðunar að spítalinn sé allt annað og meira en bara steypa. Hann er fólkið sem vinnur þarna. Ég er hins vegar sammála þeim áherslum sem eru uppi og eins og ég skynja ástandið innan Landspítalans að þetta er ekki allt saman spurning um fjármuni. Þetta er líka spurning um stjórnun og samskipti milli ólíkra sviða. Að því er unnið og ég bind mjög miklar vonir við að Páll Matthíasson, nýráðinn forstjóri Landspítalans, muni vinna mjög mikið og gott starf með sínu ágæta starfsfólki og öllum sem á spítalanum eru. Það á ekkert nema gott skilið fyrir sitt góða starf. Ég held að það verði seint ítrekað hversu mikil verðmæti (Forseti hringir.) búa innan vébanda þessarar stofnunar. Okkur ber að standa vörð um þau og eins og ég skynja umræðuna viljum við það öll.