143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hafa ekki komið fram neinar ástæður eða neitt sem gerir ráð fyrir breytingum varðandi IPA-styrkina sem búið var að ganga frá.

Þýðingarmiðstöðin — þegar breytt er um áherslur og verkefnin minnka þarf óhjákvæmilega að fækka þar störfum, fækka fólki. Það mun líka koma niður á stöðvunum úti á landi með einhverjum hætti, en mun þó verða þannig að áfram verður unnið við þýðingar á þeim stöðum þar sem það verk er unnið úti á landi í dag.

Varðandi 45 milljónirnar hef ég reyndar viljað fá meiri fjármögnun þar svo ég lýsi því yfir hér, en 45 milljónir ætlum við að nota til þess að fjölga eða bæta við starfsemina í Brussel til að vakta betur og fylgjast enn betur með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið svo að við séum fyrr í stakk búin til að gera athugasemdir eða hvað sem við viljum gera og hafa áhrif á og annað slíkt. Þannig er nú það.

Ég vil vegna orða hv. þingmanns benda á að það hlýtur að skipta máli þegar við erum að gera fjárlög fyrir þetta ár hvernig skilið var við ríkissjóð á árinu eða frá síðustu ríkisstjórn. Það er það sem hefur þau áhrif að við þurfum að lækka framlög til þróunarmála. Það er ekki einhver illkvittin ríkisstjórn sem ákveður að gera það út í loftið. Það er vegna þess að það er minna til skiptanna.

Svo vil ég líka segja við hv. þingmann að kannski mætti gera minna af því að tala hátt og tala meira af viti þegar menn eru að tala.