143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er auðvitað ekki nógu gott að þurfa að minnka framlögin eða skera niður með þessum hætti. En ég held að þetta sé sú leið sem við neyðumst til að fara í ljósi þess hvernig staðan er. Ég er sammála markmiðunum í þeirri áætlun sem Alþingi samþykkti. Ég tel að við eigum að stefna að þeim. Hvort við gerum það innan þess tímaramma sem var samþykktur eða hvort við þurfum að lengja í honum er umræða sem við þurfum að taka.

Já, ég hef í hyggju og tel mig í raun neyddan til þess, verð að gera það, að koma inn með endurskoðun á áætluninni. Ég held að mikilvægt sé að Alþingi fari í gegnum þá umræðu hvort Alþingi sé til í að fara þá leið. Ég sé það þannig fyrir mér að teygt yrði á þessu. Markmiðin yrðu þau sömu, en reynt að ná þeim á lengri tíma.

Ég veit ekki hvenær slík endurskoðun kæmi hér inn, en þetta er eitt af því sem ég held að blasi við að þurfi að gera, ég held að allir hljóti að sjá það, nú þegar ríkisstjórnin er búin að víkja frá þeirri áætlun út af efnahagsástæðum, út af þeim fyrirvörum sem menn gerðu náttúrlega vegna þess að okkur grunaði að búið væri ekki alveg jafn gott og menn héldu. Ég held því að það sé eðlilegt að hér verði tekin umræða um að endurskoða áætlunina.