143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir þessa yfirlýsingu um markmið í þróunarsamvinnu, að hann sé sammála þeim markmiðum sem sett hafa verið. Ég vonast því til þess að þegar hér kemur inn þingsályktunartillaga um endurskoðaða áætlun verði þeim markmiðum alla vega haldið og menn reyni að gera eins vel og hægt er í því og halda þeim ramma sem þar hefur verið settur. Jafnvel þótt ríkisstjórnin telji sig tilneydda til þess að breyta hlutfallstölum eitthvað á milli ára vonast ég til að menn haldi sig við meginmarkmiðin.

Ég ætla að spyrja ráðherrann út í tvennt úr fjárlagafrumvarpinu. Á bls. 304 í umfjöllun um skuldbindandi samninga er vísað til skuldbindandi samninga og vakið máls á því að margir samningar komi til endurnýjunar á næsta ári. Margir slíkir samningar varði þróunarsamvinnu og gera megi ráð fyrir að heildarkostnaður vegna þeirra fylgi þróun á framlögum Íslands til þróunarmála og þeir geti hækkað á árinu, næsta ári, vegna þessa. Vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Veit hann eitthvað hversu mikið þeir kunna að hækka og hvaða áhrif það hefur á heildarjöfnuð ríkisfjármálanna og hvenær það skýrist?

Svo vil ég einnig nefna sérstakt 45 millj. kr. framlag til Evrópusamstarfs sem byggir á þingsályktun frá því í vor sem var samþykkt hér einnig einróma. Ráðherrann gat þess að það væri m.a. til þess að styrkja sendiráðið í Brussel. Þá er rétt að rifja upp að efni þeirrar ályktunar laut ekki síður að því að styrkja hið þinglega Evrópusamstarf ef svo má segja. Það var gert ráð fyrir því í þeirri ályktun að gefa þingflokkum og þingnefndum aukin tækifæri til þess að fylgjast með gangi (Forseti hringir.) Evrópumála, EES-mála. Ég hefði því talið að hluti af viðbótarfjárveitingunni ætti að fara til þess (Forseti hringir.) og vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé ekki hugsunin.