143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Þessar 45 milljónir eru fyrst og fremst hugsaðar til að komast sem næst því sem var hér fyrir nokkrum árum þegar öll eða flest fagráðuneytin voru með sérfræðinga í Brussel sem fylgdust með EES-samningnum og gættu hagsmuna okkar. Það er ekki hugmyndin að þessir fjármunir komi að því að styrkja þingið einhvern veginn. Ég held hins vegar og hv. þingmaður veit mína skoðun á því að Alþingi þyrfti að vera miklu sterkara þegar kemur að erlendum samskiptum og t.d. að vakta einmitt hagsmunagæslu er varðar EES-samninginn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hugi að því. En mér fannst ekki svigrúm til að fara fram á, í gegnum fjárlög utanríkisráðuneytisins núna, fjárheimildir til að fara þá leið.

Varðandi þá samninga sem hv. þingmaður spurði um er einfaldlega ekki hægt að setja tölu á það, en að sjálfsögðu þarf þetta allt að rúmast innan þeirra fjárveitinga sem við fáum á hverjum tíma til þróunarsamvinnu.