143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir það yfirlit sem hann gaf hér í upphafi umræðunnar um megináherslur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu um utanríkismál. Það vekur auðvitað athygli að í frumvarpinu er ekki um að ræða mjög róttækar breytingar hvað þennan málaflokk varðar frá því sem verið hefur og auðvitað er rétt eins og kemur fram í máli hæstv. ráðherra að margir af þeim útgjaldaliðum sem þarna er að finna eru bundnir annaðhvort í samningum eða vegna aðildar okkar að alþjóðasamningum. Það er því ekki endilega svo auðvelt að hreyfa allar hinar stóru stærðir.

Ég tek undir það sem fram hefur komið í umræðunni hjá öðrum hv. þingmönnum að mikilvægt er fyrir litla þjóð, sjálfstæða þjóð, að halda uppi öflugri hagsmunagæslu og öflugri starfsemi á sviði utanríkismála. Þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Ég er þeirrar skoðunar að í ljósi þess að sú stefnubreyting hefur átt sér stað að núverandi ríkisstjórn og núverandi stjórnarmeirihluti eru ekki á leiðinni inn í Evrópusambandið kalli það jafnvel á enn þá öflugri hagsmunagæslu á ýmsum öðrum sviðum, bæði á vettvangi annarra stofnana sem um er að ræða, við þurfum að eiga mikil samskipti við Evrópusambandið engu að síður og leggja rækt við önnur alþjóðasamtök sem við tökum þátt í, og við þurfum líka að leggja áherslu á tvíhliða samskipti við önnur ríki, þar á meðal ríki Evrópu sem eru að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæg viðskiptalönd.

Ég dreg því ekki í efa að mikilvægt er fyrir okkur að halda uppi öflugri þjónustu á því sviði. Ég velti því hins vegar fyrir mér og vildi gera það að spurningu minni til hæstv. ráðherra hvort á þeim tíma sem hann hefur verið í forustu í ráðuneytinu hafi farið fram stefnumörkunarvinna um hvar áherslurnar eigi að liggja því að auðvitað, eins og aðrir hafa nefnt í þessari umræðu, snýst málið ekki bara um það hversu miklum fjármunum er varið í starfsemi af þessu tagi heldur hvernig þeim er varið. Í opinberri umræðu verður að sjálfsögðu alltaf spurt að því hvort verið sé að nýta þá fjármuni sem fara til utanríkismála með sem bestum, markvissustum og skynsamlegustum hætti.

Ég held, án þess að ég sé að gagnrýna einstakar ákvarðanir í fyrri tíð hvað þetta varðar, að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vera með stöðuga endurskoðun á því sviði til að fara yfir hvernig við verjum peningunum best, þannig að þeir nýtist (Forseti hringir.) sem best í þeim tilgangi sem við rekum utanríkisþjónustu.