143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Ég er algjörlega sammála. Það er mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur á hverjum tíma hvernig við getum sem best nýtt þá fjármuni sem við setjum í utanríkismálaflokkinn og ég verð að segja að það er mjög hollt að gera. Það er akkúrat það sem við erum að gera í ráðuneytinu núna, að velta því fyrir okkur hvernig við gerum þetta best. Það er vinna í gangi við stefnumörkun, hvernig við ætlum að nota þá krafta sem utanríkisþjónustan býr yfir. Við ætlum að opna aðeins meira dyr ráðuneytisins, þ.e. við ætlum að segja meira frá því hvað er að gerast og við hvað er verið að vinna þannig að fólk átti sig betur á því hvers konar starfsemi fer fram þar. Við munum skoða skipulag ráðuneytisins, hvort það er nógu skilvirkt, skipuritið og allt það dótarí. Við munum og erum að komin af stað með starfshóp eða vinnuhóp sem mun leita út fyrir ráðuneytið eftir aðstoð eða þátttakendum til þess að endurskoða utanríkisviðskiptaþjónustuna. Við erum að undirbúa stefnumörkun varðandi norðurslóðir sem ég hyggst svo flytja hér í þinginu, vonandi sem skýrslu. Það er mikið að gerast einmitt í þeirri stefnumörkun sem hv. þingmaður spyr um.

Það er þó eitt sem mig langar að nefna. Það er að sjálfsögðu ein mjög stór breyting í þessu fjárlagafrumvarpi frá því sem var í frumvörpum síðustu þriggja, fjögurra ára, það er ekki einn einasti aur settur í það sem kallast Evrópuviðræður. Við erum einfaldlega að skera niður þarna og nota fjármuni í annað. Það hefur auðvitað ákveðnar afleiðingar að breyta um slíka stefnu. Starfsfólki ráðuneytisins fækkar sem er sárt hjá Þýðingarmiðstöðinni, gott starfsfólk sem þarf að hverfa til annarra verkefna, en það er hluti af því að bæði þurftum við að hagræða vegna breyttra áherslna og eins hreinlega vegna kröfu um hagræðingu.