143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:40]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég er sammála honum um að það skiptir miklu máli að við eflum okkur og eflum starf okkar út á við og að það sé stór hluti starfssviðs utanríkisþjónustunnar og ráðuneytisins.

Ég vildi samt með spurningu minni til ráðherrans hér áðan spyrja líka um breytingar á starfseminni inn á við, þ.e. í ráðuneytinu, hvernig við eflum ráðuneytið og þekkingu okkar til þess einmitt að gera okkur gildandi þannig að rödd okkar, sérstaklega þegar kemur að mannréttindum, verði sterkari og við getum aukið í raun og veru getu okkar til þess að koma rödd okkar á framfæri. Það skiptir miklu máli fyrir okkur, ekki bara að gæta hagsmuna þegar þeir koma upp og þar sem þeir koma upp heldur einnig að vera gildandi hluti í alþjóðasamfélaginu. Það væri gaman að fá að sjá aðeins á þau spil.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem minntust á það hérna áðan að mjög erfitt er að horfa fram á að minna fjármagn verði veitt til alþjóðastarfs. Ég fagna því samt að sjá að við höldum sjó og rúmlega það, t.d. í framlögum okkar til reksturs alþjóðlegra skóla Sameinuðu þjóðanna. Það væri gaman að heyra hvort hæstv. ráðherra hefur einhverja framtíðarsýn þegar kemur að þeim líka.