143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Grænlendingar eru að sjálfsögðu nágrannar okkar og þátttakendur í vestnorræna starfinu með okkur og í norðurskautsstarfinu, í gegnum Dani að einhverju leyti. Hins vegar er alveg ljóst að það er mikill áhugi á þessari norðvestlægu línu allri saman. Þar þurfum við einfaldlega að taka höndum saman með vinum okkar og gera betur þegar kemur að viðskiptum og hagsmunagæslu sem lýtur að svæðinu í kringum Ísland og Grænland. Ég held því að það séu mikil tækifæri þarna þegar kemur að menningu, menntun, viðskiptum og öðru slíku.

Varðandi framlögin sem hv. þingmaður nefnir réttilega að hækki mjög mikið er það þannig að skuldbindingar Íslands og annarra EES/EFTA-ríkja ná yfir fimm ára tímabil og eiginlegar greiðslur hvert ár eru breytilegar innan þess tímabils og fara eftir gangi verkefna. Það skýrir þær sveiflur sem eru í greiðslunum. Í fjárlagafrumvarpinu er réttilega gert ráð fyrir 1,4 milljörðum sem er hækkun upp á tæpar 750 milljónir og það er einfaldlega vegna þess að nú er komið að því að bæta þarf í þennan sjóð. Árið 2012 lækkuðu framlög í sjóðinn um 920 milljónir en þá var hann einfaldlega þannig staddur.

Við fáum lítið við þetta ráðið. Á meðan við erum þátttakendur í þessu, á meðan við erum aðilar að þessum sjóðum höfum við lítið um það að segja nema að því leyti að við getum barist fyrir einhvers konar breytingum á fyrirkomulagi eða eitthvað svoleiðis. En eins og þetta er í dag er það ákveðið með formúlu sem er fyrir fram mótuð. Það var ekki gerð tilraun til að sporna við því. Við töldum einfaldlega að engar forsendur væru til þess, þ.e. að við hefðum í sjálfu sér ekkert um það að segja miðað við samkomulagið sem er í gildi um sjóðinn. En það er ágætt að nefna að (Forseti hringir.) eðlilega bera stærri ríki meiri kostnað og Norðmenn eru þar að sjálfsögðu langsamlega stærstir.