143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:53]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína á grundvelli fjárlaga og fjárveitinga til utanríkismála á komandi ári. Ég vil kannski líka undirstrika það sem áður hefur verið sagt að í fyrsta lagi er dýrt að vera maður og í öðru lagi er dýrt að vera fullvalda þjóð. Það þarf að halda uppi hagsmunagæslu víða um lönd og eins og staðan birtist í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 23 sendiráðum, útsendum aðalræðismönnum og fastanefndum. Ég velti fyrir mér, sem er náttúrlega grundvallaratriði, mati á staðsetningu hverju sinni, hvort það fari fram reglulega.

Í þessum sal eru til dæmis fluttar hjartnæmar ræður um þá gífurlegu möguleika sem eru í íslenskum landbúnaði og kornrækt. Það eru nokkur ár síðan utanríkisráðuneytið lokaði skrifstofu sinni, sendiráði í Róm þar sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur aðsetur. Við umræður í þingheimi hvarflar þetta að mér. Ég tel að fara þurfi fram mat á þessum staðsetningum og þá á grundvelli þeirra stjórnmálatengsla sem við höfum haft og viljum rækta, menningartengsla, viðskiptatengsla og síðast en ekki síst á grundvelli þeirra alþjóðastofnana sem við erum aðilar að.

Ég vil hins vegar segja að rekstur sendiráðanna eins og hann kemur fram í fjárlagatillögum virðist vera á bilinu 120–165 milljónir, Brussel sker sig úr með 247 milljónir. Það eru í sjálfu sér ekki háar tölur en ber þó að gæta að hverri krónu og í þeim umræðum sem hafa farið fram í dag liggur náttúrlega í augum uppi að okkar stóru vandamál eru í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. En engu að síður held ég að þetta mat þurfi að fara fram reglulega.

Ég hef dálitlar áhyggjur af Þýðingarmiðstöðinni. Ég met það ekki svo að aðildarumsókn að Evrópusambandinu hafi þar grundvallarþýðingu, við erum áfram í verulegu samstarfi. Íslandsstofa sem er okkar heimasendiráð, það lækkar. Ég tel að það verði að gæta að því, ef við ætlum að komast héðan út verðum við að nota Íslandsstofu. Síðast en ekki síst sakna ég þess að ekki er nokkur skapaður hlutur um norðurhjaramál í þeim kafla sem hér er (Forseti hringir.) og þá er spurning: Eru kannski rekin tvö utanríkisráðuneyti, annað í embætti forseta og hitt í embætti hæstv. utanríkisráðherra?