143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Til að svara síðustu spurningunni er vitanlega algjörlega ljóst að það er ríkisstjórnin sem mótar utanríkisstefnuna og rekur hana en hins vegar, eins og ég hef áður sagt, hefur forseti Íslands fullt leyfi til að tjá sínar skoðanir og þess háttar en hann hvorki mótar né ræður utanríkisstefnunni.

Það er hárrétt að það kostar að vera fullvalda þjóð og það að reka utanríkisþjónustu er hluti af því að vera fullvalda þjóð, að gæta hagsmuna, að vinna fyrir borgarana, að tala okkar máli á alþjóðavettvangi o.s.frv.

Þannig er að flest eða öll sendiráð sem Ísland rekur eru rekin samkvæmt gagnkvæmum samningum við önnur ríki. Það er alveg hægt að fara í gegnum þá umræðu hvort það borgi sig að vera í slíku eða ekki. Ég fullyrði að þau sendiráð sem eru rekin á Íslandi skila mun meiru inn í samfélagið en við kostum til sendiráða okkar erlendis. Síðan rekum við líka fastanefndir og ræðisskrifstofur og það er til að sinna hlutum eins og hjá alþjóðastofnunum og þess háttar. Við erum aðilar að mjög mörgum alþjóðastofnunum sem okkur ber skylda til að sinna og taka þátt í og það kostar það að við þurfum í flestum tilfellum að vera með fólk á staðnum. Við gætum hins vegar sinnt því betur ef við hefðum meiri fjármuni til þess en við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti.

Það er vert að hafa í huga, eins og ég nefndi áðan, að frá 2009 var þremur sendiráðum lokað, þar á meðal í Róm eins og hv. þingmaður nefndi. Ég held að það væri mjög æskilegt fyrir okkur, og vonandi getum við það einhvern tíma, að opna þar aftur einmitt út af þeim alþjóðastofnunum sem hv. þingmaður nefndi.