143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:09]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst út af síðustu spurningu þingmannsins þá kannski skrifast það á það að þetta er ruglingsleg bók. Það sem þarna er um að ræða er Iceland Naturally-verkefnið sem ég ræddi í framsögu minni. Það átti að falla niður, þetta er tímabundið átak og þess vegna segir að fjárveiting falli niður. Síðan kemur annars staðar sú ákvörðun sem var tekin um að framlengja það og þá kemur sama upphæðin inn. Þannig er fyrirkomulagið.

Það sem er verið að gera þarna er að halda áfram sama átakinu sem er uppbyggt þannig að fjölmörg fyrirtæki leggja fram mótframlag. Það eru fyrirtæki á sviði sjávarútvegs, það er vatnsfyrirtæki í matvælageiranum, það eru alls konar fyrirtæki sem eru í átakinu með ríkinu og einbeita sér að markaðssókn í Norður-Ameríku. Það er óbreytt frá því sem verið hefur.

Af því að hv. þingmanni fannst ég ekki vera sanngjörn þegar ég fór að bera saman árin 2012 og 2014 vil ég ítreka það sem við sögðum hér á sínum tíma að þetta snýst ekkert um viljann til að færa fjármuni frá atvinnulífinu inn í aðra geira, þetta snýst ekkert um það. Auðvitað stendur atvinnulífið undir þeirri verðmætasköpun sem við erum með í landinu. Fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnarinnar var byggð á sandi. Ég er með ræðu hér sem ég get flutt aftur, sem ég flutti 30. nóvember í fyrra við umræðu um fjárlög en þar gerði ég grein fyrir þeim fyrirvara sem ríkisstjórnin sjálf setti við þetta. Ég ætla að fá að lesa hann, með leyfi virðulegs forseta.

Fyrirvarinn við alla þessa áætlun var svona í fjárlagafrumvarpinu síðastliðið ár:

„Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Svo bæti ég við:

„Þetta þýðir með öðrum orðum: Við ætlum núna að vera […] eins og jólasveinninn. Við ætlum að gefa í skóinn út um allt, en svo verða það bara Grýla og Leppalúði sem taka við eftir kosningar sem munu þurfa að taka nammið úr skónum og passa upp á að þetta verði ekki að veruleika.“

Því miður rættust þau orð og ég stend því hér (Forseti hringir.) eins og Grýla og Leppalúði og verð að taka nammið úr skónum.