143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel nú nauðsynlegt að minna á það enn einu sinni að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að afsala sér ákveðnum tekjum úr ríkissjóði sem var búið að ákveða hér á þingi og hefði verið hægt að nota í þessi verkefni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því sem hún kom inn á í framsögu sinni, að unnið væri með nýjar áherslur í ráðuneytinu, áhættusjóði, færa á milli eitthvað, ég náði því ekki alveg nákvæmlega — einhverja afslætti, skattafslætti og annað þar fram eftir götunum, sem má vel vera að sé að hið besta mál og ég get vel trúað því. Þá langar mig til að spyrja, vegna þess að við erum svolítið óörugg um það hérna í þessum sal núna: Er verið að vinna að þessu núna á milli umræðna í þinginu? Við skiljum ekki almennilega hvort þetta er fjárlagafrumvarp sem ríkisstjórnin stendur öll á bak við og ætlar að vinna að eða hvort það sé ætlunin að breyta frumvarpinu mjög mikið í þinginu. Manni hefur heyrst það, ekki síst á formanni fjárlaganefndar að til standi að breyta mjög miklu í frumvarpinu og kannski meiru en yfirleitt hefur verið raunin. Fólk er svolítið óöruggt með hvaða plagg sé eiginlega í þessari óskiljanlegu bók. En bókin er ekki ríkisstjórninni að kenna.