143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:14]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það sem ég sagði í framsögu minni lýtur kannski fyrst og síðast að því að bæta stöðu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja almennt og er ekki eitthvað sem tengist þessu fjárlagafrumvarpi að öðru leyti en því að ég vildi greina frá þessu.

Eftir að hafa kynnt mér þessa grein, nýsköpunarstarfsemina, vel í sumar hef ég komist að raun um að það eru hlutir í hinu opinbera stoðkerfi sem virka og svo eru aðrir hlutir sem virka ekki. Þess vegna lagði ég meðal annars áherslu á það að ekki yrði allt fjármagnið í fjárfestingaráætluninni margumræddu til Tækniþróunarsjóðs skorið niður heldur mundum við auka í. Þess vegna er um helmingur af þessum 500 milljónum lagður í sjóðinn.

Annað sem ég vildi standa vörð um eru skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar vegna þess að sú aðferð virkar og fyrirtækin eru ánægð með hana. Þetta kemur inn á góðum tíma og hjálpar fyrirtækjum í þeirra vexti.

Síðan er greinilegt vandamál á ferð. Það er skortur á fjármagni, áhættufjármagni í sprota- og nýsköpunargeirann. Núna erum við að leita leiða til þess. Þetta eru reyndar hugmyndir sem ég veit að voru skoðaðar á síðasta kjörtímabili, fengu ágætisviðtökur en náðu af einhverjum ástæðum ekki fram að ganga, en ég veit að þeim var vel tekið. Ein var að athuga til að mynda hvernig við getum fengið lífeyrissjóðina, sem eru með mikið fjármagn á milli handanna sem þeir eru að leita að fjárfestingartækifærum fyrir, eða greitt fyrir að þeir geti komið að þessari starfsemi og lagt fé til nýsköpunar og fjárfest í litlum fyrirtækjum sem eru að fara af stað. Það er verið að vinna að því hvort rýmka þurfi heimildir þeirra eða hvort hægt sé með einhverjum hætti að taka fjármagn í gegnum þann sjóð sem ríkið á hlutdeild í, sem er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.