143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki verið að hlusta vegna þess að það var einmitt ekki öllu hent út bara af því að seinasta ríkisstjórn kom með það. Það sem við erum að gera er að falla ekki í sömu gryfjuna og síðasta hæstv. ríkisstjórn með því að byggja okkar fjárlagafrumvarp á sandi.

Það þýðir ekkert að halda fram sömu gömlu tuggunni um að sérstök veiðigjöld hefðu átt að fjármagna þetta. Hv. þingmaður setti sjálfur löggjöf sem stóðst ekki og við þurftum að lagfæra hana í byrjun sumar. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi að halda því fram að þetta hafi verið eitthvað sem hægt var að byggja á. Enda var settur sá fyrirvari sem ég las upp áðan, ríkisstjórnin trúði því ekki sjálf að þessi fjármögnun mundi skila sér.

Ætlaði fyrrverandi ríkisstjórn einhvern tíma að selja bankana? Nei, ég held ekki. Það átti líka að vera grundvöllurinn að fjárfestingaráætluninni. Fyrir nú utan það að það hefði þá kannski verið skynsamlegri ráðstöfun að byrja á því að lækka vaxtakostnað, greiða niður skuldir og koma ríkissjóði í jafnvægi (Gripið fram í.) áður en byrjað væri að eyða fjármunum í verkefni sem ekki var til peningur fyrir. Með því að greiða niður skuldir ríkissjóðs getum við lækkað útgjöldin, t.d. 30 milljarða kr. vaxtaútgjöld. Það eru útgjöld sem fara varanlega og þannig getum við byggt upp.

En einmitt vegna þess að þarna voru hlutir sem eru verðmætir, þá var þeim haldið. Ég get algjörlega tekið undir að Tækniþróunarsjóður, skattaívilnanirnar, afslátturinn, virkar. Þess vegna var passað upp á að viðhalda því og bætt í frá því sem var áður en fjárfestingaráætlunin tók við. Jú, það er lækkað miðað við fjárfestingaráætlun. En það er ekki þannig eins og þingmaðurinn segir að við höfum hent þessu öllu út. Við stóðum vörð um margt og við forgangsröðuðum. Þannig tókum við afstöðu til þess hverju við vildum hlúa að og hvað mætti bíða.