143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:28]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og ég vék aðeins að áðan í umræðum við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur er þetta einmitt eitt af því sem við erum að líta til, þ.e. með hvaða hætti við getum rýmkað heimildir lífeyrissjóðanna til þess að koma frekar að fjárfestingum, sérstaklega í þessum geira, nýsköpunarfyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sprotastarfsemi sem eiga erfitt uppdráttar við að sækja sér fjármagn, eins og hv. þingmaður þekkir af eigin raun og mun betur en ég, þetta umhverfi.

Hvað varðar spurningu hans um það hvort til greina kæmi að selja lífeyrissjóðunum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins finnst mér ekki að við ættum að útiloka það.

Ég vil fyrst og síðast hafa augun á markinu. Markmiðið er að auka fjármagn til fjárfestinga og gera Nýsköpunarsjóð öflugri. Hvort við gerum það með því að selja hann, með því að hleypa lífeyrissjóðunum einhvern veginn inn í hann, stofna sjóð til hliðar eða enn öðruvísi er ég alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þarna liggi mikil tækifæri. Ég get sagt hér að við erum að vinna að þessu hörðum höndum. Ég get meira að segja upplýst hann um það að seinasti fundurinn sem ég átti áður en ég kom niður í þing var einmitt þessu málefni tengt þannig að vonandi getum við unnið þetta í sameiningu og náð því sameiginlega markmiði að auka fjármagn til fjárfestinga.