143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:30]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég kem klyfjuð í ræðustól. Eins og hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur dugir þessi bók mér ekkert svakalega vel, hún segir mér ekki nógu mikið. Ég er búin að tala um það áður í dag að það hefði verið gott að hafa samanburð en svo fékk ég hjá þessari góðu stofnun sem Alþingi er, starfsmönnum hennar, samanburð og það hefur verið mjög gagnlegt að fletta í gegnum hann hérna í dag.

Hvað varðar málefni hæstv. ráðherra er ég búin að rýna ofan í þetta bókhald. Þetta eru bara tölur á blaði, debet og kredit, en það er hérna tvennt sem mig langar aðeins að spyrja um. Annað varðar lið sem ber númerið 04-528, Iðja og iðnaður, framlög. Á síðasta ári voru í fjárlögunum rúmar 206 milljónir. Með þessu frumvarpi er þetta hækkað um tæp 136%, þessi framlög eru komin upp í 486,7 milljónir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað þetta sé. Mér skilst, svo ég hjálpi hæstv. ráðherra aðeins, að þetta séu ívilnanirnar á Bakka og mig langar þá til að heyra aðeins hvað nákvæmlega felist í þeim. Erum við svo að tala um meiri fjárútlát þarna á næsta ári?

Hér hefur verið debatt um hvað hefði orðið ef fjárfestingaráætlun hefði náð fram að ganga og svo hvað er núna. Fólk er svolítið að bera saman epli og appelsínur auðvitað í því hvað eigi að telja eðlilegast. Við í Bjartri framtíð leggjum mikla áherslu á nýsköpun og að styrkja og hlúa að henni. Við hefðum viljað láta gera miklu betur, en samkvæmt því sem þið eruð að reikna út hérna eru samt, eftir ykkar bókhaldi, minni niðurfærslur en til dæmis í rannsóknum í sjávarútvegi sem mér þykir mjög miður.