143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Aukin áhersla á sprota- og nýsköpun er mjög ánægjuleg fyrir allt atvinnulífið. Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, benti á að hlutverk fyrirtækja væri að afla viðskiptavina og halda í þá en að meginverkefni þeirra væru nýsköpun og markaðssetning.

Internet-hagkerfið býður upp á gríðarleg tækifæri til þess að stuðla að skjótari og sjálfbærari vexti. Á síðasta kjörtímabili skapaði internetið 20% af hagvexti þróaðra hagkerfa, hvorki meira né minna. Af þeim vexti voru 75% í hefðbundnum iðnaði og gætti hans mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. (Gripið fram í.) Þetta eru tölur úr McKinsey-skýrslunni um internetið frá 2011. Á þessu kjörtímabili mun helmingur mannkyns verða nettengdur og hagkerfi internetsins nærri tvöfaldast. Þar eru gríðarleg tækifæri. Þessar tölur koma frá skýrslu The Boston Consulting Group um internetið.

Netvænt lagaumhverfi er það sem fjárfestar í tæknigeiranum eru að bíða eftir. Við höfum talað við fjölmarga um það. Aukin erlend fjárfesting þýðir vöxt fyrirtækja, fleiri, fjölbreyttari og betur launuð störf og aukið innstreymi gjaldeyris sem auðveldar síðan að sjálfsögðu gjaldeyrishöft.

Lítil og meðalstór fyrirtæki sem nýta sér internetið — þetta eru líka tölur úr McKinsey skýrslunni — vaxa tvöfalt hraðar, skapa tvöfalt fleiri ný störf og hafa tvöfalt hærri útflutningstekjur. Úr skýrslu frá Viðskiptaráði frá 2009 kemur fram að lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi hafa 2/3 alls starfsfólks í vinnu og skapa í kringum 60% af heildarverðmæti hagkerfisins, einhvers staðar í kringum það. Það er því til mikils að vinna.

Sem bónus kemur fram í skýrslu International Chamber of Commerce, með leyfi forseta:

„Internetið og önnur upplýsingatækni spila lykilhlutverk í uppbyggingu sjálfbærs græns hagkerfis.“

Fram kemur að internetið og önnur upplýsingatækni dragi úr heildarorkunotkun, það spari orku með betri nýtingu hennar og dragi úr útblæstri koltvísýrings.

Það sem mig langar því að vita er hvernig fjárlagafrumvarpið stuðlar að því að Íslendingar geti nýtt þau gríðarlegu tækifæri til atvinnu, hagvaxtar og útflutningstekna sem internetið býður upp á.