143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:43]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu máli. Ég get upplýst hér að bæði á nefndarfundi og að lokinni umræðu um stefnuræðuna kom hv. þingmaður að máli við mig og kynnti mér þessa skýrslu. Ég verð að játa að ég hafði ekki séð hana en er mjög forvitin að sjá hvernig við getum vonandi í sameiningu stuðlað að því að bæta okkur á þessu sviði.

Ég get eiginlega ekki svarað spurningunni: Hvernig mun fjárlagafrumvarpið tryggja að þessi leið verði farin hér? Ég vil bara nota tækifærið, misnota aðstöðu mína hér og spyrja þingmanninn: Hvaða tillögur hefur hann til þess að leggja fram þannig að við getum tryggt það? Við höfum öll skilyrði hér til þess að geta nýtt okkur internetið betur, erum nú þegar framarlega á því sviði þegar við skoðum alþjóðlega mælikvarða. Í viðskiptalífinu og til þess að stofna fyrirtæki, vera með atvinnustarfsemi og greiða fyrir henni á netinu er ágætt að hugsa stefnumótun í þeim efnum eins og annars staðar. Ég óska hér með eftir því að hv. þingmaður komi með okkur í þann leiðangur og að við fáum að nýta krafta hans til að gera enn þá betur í þessu. Ég er opin fyrir öllum hugmyndum.