143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:52]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það kemur kannski ekki á óvart að það er ákveðinn samhljómur í skoðunum okkar enda erum við í sama þingflokki.

Það sem ég vildi segja og leggja áherslu á hér, sérstaklega af því að fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra situr í salnum, við höfum nú ekki verið sammála þó að það hafi gerst reyndar um daginn að við vorum sammála um ákveðið mál, að það er markmið mitt að stuðla að því að við séum ekki sífellt að etja atvinnugreinum saman og skipa mönnum og fyrirtækjum í einhverja flokka; þessi er í nýsköpun, hann er góður, þessi er í skapandi greinum, hann er góður, þessi er í einhverri iðnaðarstarfsemi sem fylgir meiri óþrifnaður og þá hlýtur hann að vera eitthvað vondur. Mér finnst það þreytandi og ég vil fyrir alla muni biðja okkur um að víkja af þeirri leið.

Eins og fram kom fram í orðaskiptum okkar hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar fer þetta saman. Þingmaðurinn lagði áherslu á að við þyrftum að auka hér og benda á tækifæri sem felast í því að auka aðkomu internetsins í atvinnulífinu. Hvað er það þá sem við þurfum að bæta? Þá þurfum við að bæta og laga menntakerfið að þeim þörfum, við þurfum að bæta innviði, við þurfum að gera hluti sem við þurfum að gera fyrir atvinnulífið í heild. Nýsköpun fer vel með orkunýtingu og þar verður gríðarlega mikil nýsköpun einmitt við það að þurfa að leysa vandamál. Maður sér það t.d. á uppbyggingu orkunýtingar í Svartsengi. Þegar menn fóru þar af stað af mikilli framsýni fyrir einhverjum áratugum þurftu þeir að leysa vandamál sem upp komu og öðluðust þannig þekkingu sem verið er að nýta í frekari uppbyggingu annars staðar.

Þannig held ég að við náum árangri og þannig held ég að við náum að efla og (Forseti hringir.) nýta þau tækifæri sem eru hérna úti um allt.