143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar spurt er hvort horft sé til framtíðar með þeim fjárlögum sem hér eru lögð fram, hvort sem um er að ræða menntamál eða aðra málaflokka, er það gert þannig að hér er lagt fram frumvarp sem stöðvar skuldasöfnun sem staðið hefur óslitið undanfarin ár. Að hluta til átti sú skuldasöfnun sér skýringar en hún hefur gengið of langt og var orðin þjóðhagsleg vá. (Gripið fram í.) Það felst heilmikil framtíðarsýn í því að stöðva þá þróun, virðulegi forseti. Þjóð sem greiðir allt að því 80 milljarða á ári í vexti verður að stöðva skuldasöfnunina, það er auðvitað hin stóra framtíðarsýn, einnig sú að létta álögum af almenningi. Þó að það séu ekki stórar fjárhæðir nú voru stigin fyrstu skrefin þar og það eru skref í átt til framtíðar.

Hvað varðar skapandi greinar er það allt rétt sem hv. þingmaður segir um mikilvægi þessara greina. Því var þó stillt upp þannig í þinginu af hálfu fyrri ríkisstjórnar að það var tengt beint við svokallaða fjárfestingaráætlun og fjármögnun hennar. Það var skattur á sjávarútveginn sem allir þeir sem skoðuðu það mál sáu að gat aldrei gengið upp og mundi ekki skila þeim fjármunum sem lagt var upp með að ná inn.

Einnig sjá menn að við þurfum að takast á við það ástand að það stefndi í tugmilljarða halla á ríkissjóði vegna allra þeirra loforða sem gefin höfðu verið. Framtíðarsýnin í fjárlagafrumvarpinu er nokkuð ólík því sem verið hefur áður, þ.e. að ná föstu landi undir fætur. Þar með eflist verðmætasköpun í landinu og þar með aukast tekjur ríkissjóðs og þar með höfum við frekari tækifæri til að stuðla að nýsköpun og fleiri vaxtarbroddum. En það varð að stöðva skuldasöfnunina, annars hefði verið hér vá fyrir dyrum. Þess vegna skipti það máli, virðulegi forseti. Hér var Lánasjóður íslenskra námsmanna sérstaklega nefndur enn og aftur. Það er rétt að taka það fram að þar var lagt upp með að sama námsframvindukrafa væri gerð nú eins og verið hafði hér árum og áratugum saman, 75%. Hún er sú sama og gildir almennt á Norðurlöndum. Það var ekki með nokkrum hætti, eins og látið var liggja að hér, að verið væri að vega að stöðu námsmanna með slíku.