143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar, þær eru afmarkaðar og greinargóðar. Ég hlífi þá þingmanninum við ræðu um ríkisfjármálin almennt úr því að um það var beðið. Varðandi langtímaþróunina er settur upp þessi ferill í fjárlögunum, þ.e. að öllu öðru óbreyttu munu framlögin þróast svona þannig að áhrif fjárfestingaráætlunarinnar eru sköluð niður með þessum hætti. Það breytir því ekki að það er þá sjálfstæð ákvörðun sem taka þarf í framhaldinu hvernig staðið verður að mögulegri aukningu til þessara sjóða. Þarna er einungis verið að leggja upp hvernig þessi sérstaka fjárveiting verður sköluð niður. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að þetta eigi að auka á næsta ári, ég tel það mjög mikilvægt.

Varðandi innritunargjöldin í háskóla er rétt að greina frá því að ég kallaði eftir því við rektora hinna opinberu háskóla að fá frá þeim mat sérstaklega um hver þessi kostnaður yrði. Ég lét það reyndar fylgja að ég mundi fallast á þá niðurstöðu sem kæmi frá háskólunum. Ég tel rétt að það sé þeirra að ákveða þetta, að það sé þeirra mat sem gildir. Það liggur fyrir með bréfi sem ég fékk sent frá háskólarektorunum þar sem kemur fram að samkvæmt tölum frá Háskóla Íslands mætti reikna með því að talan þar væri u.þ.b. 75 þús. kr. og Háskólinn á Akureyri einhvers staðar í kringum 80 þús. kr. Niðurstaðan er því sú að leggja til 75 þús. kr. innritunargjald. Því fylgdi síðan rökstuðningur frá skólunum um kostnaðinn. Ég tel enn og aftur rétt að ráðherrar grípi ekki þarna inn í, ég tel rétt að háskólarnir hafi fullt forræði yfir þessu máli.

Ég svara hinum spurningunum í næstu ræðu minni, virðulegi forseti.