143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Við munum að sjálfsögðu kynna okkur þau gögn sem háskólar landsins hafa sent hæstv. ráðherra um þessa hækkun á skrásetningargjöldum.

Mig langar að bæta því við hvort hæstv. ráðherra hyggist þá ekki beita sér fyrir því að samkeppnissjóðir á sviði vísinda verði efldir. Hann svaraði reyndar ekki þeirri spurningu minni hvort hann teldi 11% úthlutunarhlutfall ásættanlegt. Ég ætla að leyfa mér að svara þeirri spurningu sjálf. Það er alveg ljóst að eins og staðan var orðin í samkeppnissjóðum með 11% úthlutunarhlutfall er verið að hafna afskaplega mörgum góðum verkefnum sem eru verðmætaskapandi fyrir samfélagið, sem eru atvinnuskapandi fyrir samfélagið. Eðlilegt úthlutunarhlutfall úr svona sjóðum er 20–25% og ég gæti trúað því að ef hæstv. ráðherra mundi nú rýna í þá aukningu sem varð hér á þessum sjóði þá mundi hún líklega duga til þess að ná einmitt í neðri mörkin á slíku úthlutunarhlutfalli.

Mig langar til að bæta við einni spurningu og hæstv. ráðherra mun svo væntanlega svara þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið um rekstrarform háskóla og hvernig nákvæmlega eigi að innleiða nýja menntastefnu. Mig langar að bæta við einni spurningu í ljósi þess að sú aukning sem sett var í verkefnasjóði skapandi greina er núlluð út í fjárlagafrumvarpinu og þar með talið er þá núllað út framlag í nýjan myndlistarsjóð, lögbundinn, sem samþykktur var hér á þingi samhljóða: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að sjá til þess að lögum í landinu verði fylgt og myndlistarsjóður verði fær um að úthluta?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til hönnunarsjóðs sem nú nýlega var úthlutað úr, en eins og hæstv. ráðherra er kunnugt og væntanlega fleiri hv. þingmönnum eru opinber framlög til hönnunar hvað lægst þegar við skoðum framlög til hinna skapandi greina. Þar er gríðarlegur vaxtarsproti og við sjáum að þau framlög sem eru sett í hinn listræna þátt skila sér margfalt til baka því að það er grunnurinn sem þarf til að halda áfram, til að fara út í framleiðslu á íslenskri hönnun sem við dásömum nú gjarnan í þessum sal. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér sína aðkomu að málefnum hönnunar til að efla hér hönnun?