143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til fjárlaga sem lagt var fram síðastliðinn þriðjudag. Eins og við er að búast sýnist sitt hverjum enda ómögulegt að gera öllum til hæfis jafnvel þótt við hefðum úr mun meiri fjármunum að spila en raunin er. Lykilatriði er að ná þeim mikilvæga áfanga að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs en halda jafnframt úti mikilvægri grunnþjónustu um land allt.

Umræðan um fjárlögin hefur að mörgu leyti vakið furðu mína, þ.e. hve upphrópunarkennd hún er. Það markast nokkuð af framsetningu þar sem erfitt er að nálgast samanburð aftur í tímann eða öðlast yfirsýn. Ég er því mjög ánægð með að hæstv. fjármálaráðherra kynnti í gær að unnið væri að frumvarpi um opinber fjármál með það að markmiði að tryggja vandaðan undirbúning stefnumörkunar í opinberum fjármálum og aukinn aga og festu. Slík vinna verður vonandi grundvöllur fyrir hnitmiðaðri umræðu um ríkisfjármál og efnislegri umræðu um heildarframlög til málaflokka.

Hér ræðum við sérstaklega þann hluta fjárlaga sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Það er vissulega margt sem vekur athygli og langar mig að koma inn á nokkur atriði og óska eftir skýringum frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Fjármagn sem ætlað var til verkefnisins Nám er vinnandi vegur hefur nú verið skorið niður um 400 milljónir. Er það mat hæstv. ráðherra að ekki sé lengur þörf á úrræðinu eða er þessi leið að fullu nýtt og kannski kominn tími til að huga að öðrum verkefnum?

Dregið er úr framkvæmdum við framhaldsskóla. Þótt það sé ekki góður kostur er það samt mun betra en að herða enn að rekstri skólanna. Mig langar þess vegna að spyrja sérstaklega um framkvæmdir við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem ekki er á fjárlögum. Höfum við hætt við það verkefni eða verður því frestað?

Hjá háskólunum vekur það sérstaka athygli að framlög til háskólanna á Bifröst og á Hólum eru skert verulega. Hver er ástæðan fyrir því?

Gert er ráð fyrir að útgjöld til ýmissa íþróttamála hækki. Þar vekur athygli mína 15 millj. kr. hækkun til ferðasjóðs Íþróttasambands Íslands. Þessi hækkun er gríðarlega mikilvæg fyrir íþróttafélög sem þurfa að ferðast langar leiðir vegna æfinga og keppni. Hversu mikil er þessi hækkun hlutfallslega og hver verður heildarupphæðin í ferðasjóðnum?

Framlag til jöfnunar námskostnaðar lækkar að því er mér virðist. Á því virðist vera rökrétt skýring sem er þó erfitt að átta sig á út frá þeim gögnum sem ég hef undir höndum. Mig langar því að biðja hæstv. ráðherra að skýra það mál frekar.