143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þetta svar. Nú er ég nýr þingmaður eins og margoft hefur komið fram og að lesa fjárlögin er náttúrlega næstum því eins og að lesa kínversku þegar maður er svona óvanur því. Það sem slær mann er að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að leggja eigi gríðarlega áherslu á skapandi greinar og menntamál, hafa samráð við hagsmunaaðila í öllu sem viðkemur því að efla menntun og taka ákvarðanir í menntamálum. Það virðist bara ekkert hafa verið gert.

Menn berja sér á brjóst í ræðum á hátíðarstundum og hvenær sem er og segjast ætla að gera hitt og þetta en meina svo allt annað. Það sem er kannski enn þá grátlegra við þetta frumvarp er að niðurskurður í menntakerfinu var aldrei nefndur í kosningabaráttunni og ekki heldur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra lagði hann mikla áherslu á menntun sem lykilatriði í að rífa allar þjóðir upp þegar kreppur eru.

Ég hef líka sagt eins og ég sagði áðan að ég skil vel að það þarf að ná niður hallarekstrinum til að hægt sé að byggja upp, en við höfum nóg önnur tækifæri til þess. Eins og var nefnt fyrr í dag með tekjuskattslækkunina sem á að skila 5 milljörðum — ég er alveg viss um að almenningur mundi vera tilbúinn að sleppa þeirri tekjuskattslækkun sem er náttúrlega nánast engin hvernig sem á hana er litið.

Þetta er bara 1. umr. um fjárlagafrumvarpið. Ég veit að það tekur alltaf miklum breytingum. Ég treysti því að við náum að minnka þetta rothögg eða það kjaftshögg sem mennta- og menningarmál fá í frumvarpinu, því þannig er það. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess, ekki spurning.