143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Úr því að hv. þingmaður lýsti tilfinningum sínum svo að það að lesa fjárlögin væri eins og að lesa kínversku er rétt að vekja athygli á því, og það er ágætt, að við bætum við 3 millj. kr. til Árnastofnunar til að hægt sé að halda úti kennslu í erlendum tungumálum og þá kínversku, þannig að það gaf mér ágætt tækifæri til að minnast á það.

Það er reyndar líka rétt að nefna að við setjum 300 millj. kr. í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands eins og fyrirhugað hafði verið og staðið er við það. Enn og aftur, ef við horfum til ársins 2012 aukum við verulega og myndarlega framlagið til Rannsóknasjóðs. Við stöndum við fyrirhugaða hækkun sem var ákveðin varðandi Kvikmyndasjóð og þar eru settar þær 70 milljónir sem lofað var í því samkomulagi sem var á milli stjórnvalda og kvikmyndagerðarinnar.

Aðalatriðið er, virðulegi forseti, og það er það sem skiptir verulegu máli, og þess vegna skil ég ekki alveg hvers vegna hv. þingmaður kýs að leggja þetta upp sem rothögg á menntakerfið, að núna í fyrsta sinn, enn og aftur, frá því 2007 er niðurskurðurinn í framhaldsskólunum, í rekstri þeirra, stöðvaður. Ég veit, virðulegi forseti, og vísa til orða hv. þingmanns sjálfs að honum finnst eins og hann sé að lesa kínversku þegar hann les fjárlögin, en ef hann gefur sér góðan tíma og fer í gegnum framhaldsskólaliðinn þá blasir þetta við. Þá blasir auðvitað við sú stefnumótandi breyting sem orðin er.

Það þýðir, virðulegi forseti, líka að við höfum þurft að neita okkur um ýmis þau verkefni sem spennandi eru og nauðsynleg og geta horft til framfara í landinu. Það er vissulega svo. Ég vonast til að hægt verði að ráðast í þau á næstu árum. En það skiptir máli að snúa við þeirri þróun sem ég lýsti áðan hvað varðar sérstaklega framhaldsskólann. Þar var búið að skera niður, inn að beini. Ég veit að það var ekki gert vegna þess að fyrrverandi ráðherra eða ríkisstjórn langaði til þess. En það varð að gera, það var verið að reyna að ná tökum á rekstri. Núna er þetta svona.

Ég bendi á, virðulegi forseti, þegar um er að ræða fjármuni til þessa og hv. þingmaður nefndi hér einn skatt, að núna var þó lagður á þessi bankaskattur (Forseti hringir.) og hann hleypur á mjög háum fjárhæðum sem skiptir verulega miklu máli fyrir okkur til að komast réttum megin við núllið.