143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hvað varðar framtíðarsýn ítreka ég að þegar horft er til ýmissa málaflokka, t.d. á menningarsviðinu og listasviðinu, er rétt að hafa sem viðmiðunarár árið 2012. Í það minnsta tel ég málefnaleg rök fyrir því. Það má ljóst vera að sú mikla innspýting sem varð 2013, átti að vera 2014, átti sér grundvöll í veiðileyfagjaldinu sem lá fyrir að mundi ekki, þó að lagt yrði á í óbreyttri mynd, skila þeim tekjum sem ætlast var til. Þegar menn horfa til baka til ársins 2012 og þeirrar þróunar sem við erum þá með sjá menn að það er verið að bæta í frá því ári og sums staðar allverulega. Það er bara ekki staðið við þau loforð og þær væntingar sem var búið að gefa.

Hvað varðar sýnina á þá stöðu sem er uppi núna hef ég lýst henni þannig áður að hún sé um að reyna að verja eftir mætti kjarnastarfsemina. Ég hef bent sérstaklega á framhaldsskólann en sama gildir líka með aðra þætti. Þess vegna hef ég frekar viljað slá nýjum verkefnum á frest.

Hvað varðar heildarsýnina á skólakerfið hef ég á undanförnum vikum og mánuðum reifað hugmyndir um breytingar í grundvallaratriðum hvað varðar framhaldsskólann, styttingu náms til stúdentsprófs, og hef bent á að við erum eina þjóðin innan OECD sem er með 14 ára námsferil fram að stúdentsprófi og tel rétt að endurskoða það. Ég hef líka reifað hugmyndir og lagt ákveðnar línur hvað varðar þróun háskólastarfsins, þá skoðun mína að það gangi ekki fyrir okkur og sé ekki eðlilegt að vera með sjö sjálfstætt starfandi háskóla hjá 320 þús. manna þjóð. Þetta ásamt mörgu öðru myndar grunninn að þessari framtíðarsýn sem hv. þingmaður var að kalla eftir. Ég held að við séum síðan öll sammála um mikilvægi þessa málaflokks. Það er spurningin hvernig við komumst í gegnum þennan skafl núna og vonandi síðan erum við að horfa fram til tíma (Forseti hringir.) sem skilar okkur meiri tekjum og við getum haldið áfram að byggja upp.