143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet hann til þess að standa að því að stytta nám til stúdentsprófs. Ég er einnig mjög hlynntur þeim breytingum sem hann hugðist gera á úthlutunarreglum LÍN, að við gerum sömu kröfur til okkar fólks og gerðar eru í Skandinavíu. Ég skil ekki að það þurfi að gera minni kröfur til íslenskra ungmenna í sambandi við nám en annars staðar. Ég trúi því ekki að þess þurfi, rétt eins og með allt of langt nám.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um brottfall úr skóla. Brottfall úr skóla er mikið mein, það brýtur niður fólk, það brýtur niður þá nemendur sem lenda í því og það er ekki bara í framhaldsskólanum. Kennarar í grunnskóla segja mér að þeir sjái strax hverjir muni flosna upp úr framhaldsskóla þannig að þetta er miklu lengra ferli. Ég skora á hæstv. ráðherra að vinna hart að því að koma í veg fyrir brottfall, í fyrsta lagi vegna þess að það kostar helling. Það hefur verið sköpuð aðstaða fyrir mann til að læra sem kostar helling, milljón á ári. Í öðru lagi er það hið sálfræðilega niðurbrot á viðkomandi einstaklingi sem ég held að sé mjög mikilvægt að koma í veg fyrir.

Ég skora því á hæstv. ráðherra að gera hvort tveggja. Ég held ég sé ekki með fleiri spurningar í bili nema um Hörpuna, hvort ekki þurfi að fara að horfast í augu við þann vanda og segja þjóðinni: Heyrðu, þetta kostar 700–800 milljónir á ári í 35 ár, reyndar eru ekki nema 30 ár eftir, þetta er bara kostnaður og hann er svo og svo margir tugir milljarða.