143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar kostnaðinn við Hörpuna get ég alveg verið sammála hv. þingmanni að nauðsynlegt sé að leiða fram allan þann kostnað sem þar er um að ræða. Það gildir um það mál eins og öll önnur mál þar sem ríki og sveitarfélög fara með skattfjármuni. Það er þó rétt að hafa í huga varðandi kostnaðinn að deilan er óleyst milli ríkisins og Reykjavíkurborgar hvað varðar fasteignagjöld, en ég er þeirrar skoðunar að auðvitað sé fráleitt að greidd séu full fasteignagjöld af þeirri byggingu.

Hvað varðar námið og styttingu þess svo og breytingar á námsfyrirkomulagi, og fyrst um háskólann af því að hann var nefndur hér, hlýtur að vera til umhugsunar fyrir okkur sú niðurstaða OECD að meðalaldur þeirra sem ljúka háskólanámi á Íslandi, BA- og BS-gráðu, sé 30,6 ár á meðan meðaltalið fyrir OECD-löndin er 26 ár. Það hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni, virðulegi forseti.

Já, ég er mjög sammála hv. þingmanni að eðlilegt sé að gera sömu kröfu hér á landi um námsframvindu í háskólanámi og er gerð almennt á öllum Norðurlöndunum og var reyndar gerð hér þar til fyrir örfáum árum síðan. Ég held að það sé skynsamlegt og rétt tilhögun. Það er rétt að nefna sérstaklega af því að rætt var um það áður að ástæðan fyrir því að ekki var hægt að framkvæma það að þessu sinni var sú niðurstaða héraðsdóms að það hefði þurft að vera búið að ganga frá þeim breytingum fyrir 1. júní sem var auðvitað óframkvæmanlegt. Eftir stóðu tillögur fyrri stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um fleiri hundraða milljóna króna hækkun á námslánum sem var algjörlega útilokað og vonlaust að hægt væri að standa við. Í því var fólginn einhver alger misskilningur á stöðu ríkisfjármála. Má segja að það hefði verið skynsamlegt og betra að það hefðu komið fyrr frá þeirri stjórn tillögur um stöðu lánasjóðsins sem hægt hefði verið að byggja á því að ekki var hægt að byggja á (Forseti hringir.) þeim tillögum.