143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar, ég náði ekki alveg að svara fyrstu spurningunni sem snýr að því að vissulega hefur orðið fækkun á þeim nemendum sem þurfa á þeim úrræðum að halda sem átakið Nám er vinnandi vegur beindist einkum og sér í lagi að. Á því eru sennilega nokkuð margar skýringar. Atvinnustigið hefur smám saman verið að batna þannig að ákveðinn kúfur er búinn að fara í gegnum kerfið eins og ég lýsti hér áðan. Þess vegna er það svo að þegar við stöndum frammi fyrir þessum fjárlögum núna höfum við lagt höfuðáherslu á að hætt verði að skera niður rekstur framhaldsskólanna, að þeir verði varðir þannig að það verði sama staða og var í fyrra þó að hún hafi auðvitað ekki verið allt of góð. Ég veit að fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra er mér örugglega sammála um að vel hefði mátt bæta í þann málaflokk í fyrra rétt eins og ég hefði gjarnan viljað geta bætt í þennan málaflokk núna, en þetta er staðan. En í það minnsta erum við ekki að skera niður í framhaldsskólann og það er í fyrsta sinn síðan 2007 sem sú staða er uppi.

Hvað varðar þau verkefni sem nefnd voru varðandi Breiðholtið og Norðvesturlandið þá eru þessi verkefni í gangi núna, skipuð var stjórn sem er yfir þessu verkefni. Fyrir skömmu var sérstaklega fjallað um Breiðholtsverkefnið þar sem því var lýst hvernig það mundi ganga fyrir sig, þannig að ég held og vona að þessi verkefni séu í ágætum farvegi.

Hvað varðar æskulýðsstarfsemina vísa ég sérstaklega til þess að við erum að efla og auka framlög til íþróttamála, sem er auðvitað stór hluti af æskulýðsstarfseminni almennt. Ég mundi því segja að á heildina litið sé þeim málaflokki ágætlega fyrir komið.

Hvað varðar Hóla, virðulegi forseti, og við eigum örugglega eftir að ræða það mál meira þegar ég á aðeins meira en sjö sekúndur eftir af ræðutíma mínum, er auðvitað alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að þar er heilmikill fortíðarvandi en það hefur líka verið unnið mjög mikið á þeim vanda og heilmikið gert. (Forseti hringir.) Spurningarnar eru enn og aftur um gæði, um námsframboð í landinu o.s.frv. Það er það sem ég hef verið að benda á og ég tel að þar séu tækifæri fyrir okkur (Forseti hringir.) til þess að nýta betur þá fjármuni sem við höfum úr að spila.