143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að lengja umræðuna á þessu stigi en mig langar aðeins að heyra svarið varðandi iðn- og tæknigreinar, hvar þess sér stað í frumvarpinu hvernig eigi að efla þær, vegna þess að það er eitt af því sem er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í því samhengi má nefna það sem kom fram fyrr í umræðunni að slegið er af verknámshús sem átti að byggja á Selfossi. Það hefur komið fram að sveitarfélögin á því svæði höfðu safnað til þess að eiga mótframlagið í þá byggingu. Það eru ákveðnir skólar í landinu sem hafa sinnt iðn- og tæknigreinum betur en aðrir skólar og ég held að það sé mjög mikilvægt að hlúð sé vel að þeim skólum og þess gætt að ekki sé farið í ódýrari lausnir með því að vera eingöngu með bóknámsskóla í hinum dreifðu byggðum landsins og þannig valið fyrir hönd viðkomandi svæða. Við höfum stundum haft áhyggjur af þessu, t.d. á Vesturlandi þar sem er Menntaskóli Borgarfjarðar og síðan skóli á Snæfellsnesinu þar sem ekki er mögulegt að bjóða upp á iðn- og tæknigreinar, ekki í nægjanlegu magni. Í heildina vitum við auðvitað að við erum aftarlega á merinni hvað þessar greinar varðar og það hlýtur að koma fram í hvítbókinni.