143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum útgjaldaáætlun til mennta- og menningarmála. Áður en ég fæ að beina spurningum um þann málaflokk til hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála langar mig aðeins að koma almennt inn á fjárlagafrumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra lagði hér fram vegna þess að það hefur verið gagnrýnt fyrir að fela ekki í sér stefnu. Ég furða mig á þeim málflutningi vegna þess að um er að ræða mjög hófstillta stefnu og hún tengist nákvæmlega þeirri stöðu sem við erum í með hagkerfið. Staðreyndin er sú, og við þurfum að halda því til haga, að hið hefðbundna líkan hagfræðinnar að lækka skatta duglega og auka um leið ríkisútgjöld og reka ríkissjóð með halla á hreinlega ekki við. Svigrúmið er einfaldlega ekki nægjanlegt vegna skuldsetningar ríkissjóðs.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram útgjaldaáætlun sem er undir þessari almennu hagræðingarkröfu, hófstilltri sem er mjög mikilvægt, 1,5%, og eðlilega hefur verið rætt mikið um framhaldsskólana og háskólana, enda standa þeir fyrir 70% af þeim útgjaldalið. Í niðurskurði menntakerfisins undanfarin ár er augljóst að starfsfólk og stjórnendur og kennarar framhaldsskólanna hafa staðið sig afar vel þegar kemur að hagræðingu og ekki síst í lausnum sem snúa meðal annars að hugvitsamlegum kennsluaðferðum. Niðurskurður undanfarinna ára til framhaldsskólanna hefur leitt af sér færri kennslustundir til skiptanna fyrir kennara og í raun afhjúpað þá staðreynd að kennarar þar hafa setið eftir í launum og standa samanburðarhópum sínum langt að baki.

Mig langar að beina spurningu til hæstv. ráðherra. Hann hefur talað um að ekki hafi verið skorið niður í framhaldsskólum en formaður Skólameistarafélags Íslands hefur talað um niðurskurð upp á að meðaltali 4%. Hver er skýringin á þeim mismun?