143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég spyr um þessar mörkuðu tekjur er auðvitað að okkur getur greint á um það hvort það eigi að veita aukið fé til þess að greiða niður uppsafnaðar, ja, það sem sumir kalla skuldir Vegagerðarinnar, þarna eru rúmar 1.200 milljónir, eða hvort það eigi að gera þetta svona. Þetta lítur út eins og endurgreiðsla sé byrjuð að eiga sér stað og ég get ekki tekið undir að þetta sé endilega besti tíminn til að byrja slíka vinnu. Það er auðvitað mín skoðun.

Ég ætla að bæta hérna aðeins við af því að samhliða þessu aukna fjármagni sem er núna lagt til handa lögreglunni og sýslumannsembættunum veltir maður fyrir sér með þennan uppsafnaða vanda þessara stofnana hvort búið sé að kortleggja og hvort til séu einhverjar skriflegar áætlanir til þess að leysa það, hversu langan tíma það taki og hversu mikla fjármuni þurfi til þess. Hvenær er gert ráð fyrir því að fækka sýslumannsembættum og lögregluumdæmum? Þetta kemur auðvitað mikið við mörg sveitarfélaganna. Hæstv. ráðherra talaði um að hún væri með frumvarp í smíðum þannig að mig langar að vita hvort það er eitthvað sem kemur þá til framkvæmda strax á næsta ári eða þarnæsta.

Síðan hef ég miklar áhyggjur af því að það eigi að fella niður 76 millj. kr. framlag vegna innanlandsflugs á ríkisstyrktum óarðbærum leiðum. Í samgönguáætlun er innanlandsflugið skilgreint sem mikilvægur hluti af almenningssamgöngum. Við erum að tala um afskekktar byggðir þar sem við vitum öll að flugið skiptir gríðarlega miklu máli til að treysta byggð og tryggja þjónustu við fólk og fyrirtæki. Ég spyr því hvort hæstv. innanríkisráðherra hyggist gera einhverjar breytingar þar á.

Einnig velti ég fyrir mér 3 millj. kr. niðurskurði í fjarskiptasjóði. Við vitum að háhraðatengingar og annað slíkt skipta miklu máli fyrir íbúa hinna dreifðu byggða. Veit ráðherrann um framkvæmdir sem þurfa að eiga sér stað til þess að íbúar geti búið við viðunandi ástand?