143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Til þess að svara fyrst varðandi auknar forvirkar rannsóknarheimildir til lögreglunnar þá eru ekki áform um auknar heimildir til slíks, alla vega ekki á komandi þingi. Ég hef ekki boðað frumvarp um það. Varðandi lögregluembættið á Suðurnesjum þá tek ég undir með hv. þingmanni þar. Þar hefur verið unnið mjög gott starf. Embættið hefur verið afar vel rekið á undanförnum árum en hefur þó verið að draga á eftir sér hala af gömlum syndum, ef við getum orðað það þannig, og við viljum leggja okkur öll fram um að tryggja að sanngirni sé gætt í úthlutun fjármagns á því svæði sérstaklega.

Svo komum við að fangelsinu á Hólmsheiði. Eftir mikla yfirlegu, eins og ég hef áður sagt hér úr þessum ræðustóli, á milli innanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins í sumar er það algjörlega mín skoðun — og ég get upplýst það hér að ég hafði, áður en ég kom að því verkefni með þessum hætti, ákveðnar efasemdir en hef þær ekki lengur. Ég tel mjög brýnt að reisa fangelsi á Hólmsheiði. Ég er ekki sammála því þegar talað er um að kostnaður á hvern klefa — þó að það hljómi eins og það sé há tala þá er hún til samanburðar helmingi lægri en á við um þá klefa sem reistir eru í nágrannalöndum okkar og eru hugsaðir til vistunar fyrir fangelsi af þessum toga, sem er gæsluvarðhaldsfangelsi.

Varðandi ökklabönd og samfélagsþjónustu þá er þannig haldið á því, eins og ég upplýsti í svari til þingsins fyrr í sumar, að það er talið að við séum að gera eins vel og mögulega er hægt í því. Og varðandi það að innrétta bráðabirgðahúsnæði þá hafa ýmsir hlutir verið skoðaðir í því. Það er fyrirliggjandi og til skýrsla um alls kyns útfærslur sem voru skoðaðar. Niðurstaðan af þeirri skoðun var alfarið sú að það væri dýrara að reisa gæsluvarðhaldsfangelsi í bráðabirgðahúsnæði en að reisa það nýtt. Það lýtur að kostnaði vegna tæknilausna. Það lýtur að kostnaði vegna starfsmanna. Þrátt fyrir að sá kostnaður sem hlýst af því að reisa nýtt fangelsi geti við fyrstu sýn virst meiri en eðlilegt getur talist þá er það álit mitt, við yfirferð og nákvæma skoðun, að svo sé ekki og að það sé verkefni sem við verðum að ráðast í.